Börkur Gunnarsson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, er nú staddur í Úkraínu að klára heimildarmynd sem fjallar um þær menningarbreytingar sem eru að eiga sér stað í landinu þessa stundina.

Hann eyddi sex vikum í Úkraínu fyrir ári síðan ásamt Vali Gunnarssyni þar sem þeir fluttu fréttir fyrir RÚV og lagði Börkur þá grunninn að heimildarmynd sem hann hyggst nú klára.

Á meðan mun Hlín Jóhannesdóttir, framleiðandi og starfsmannastjóri KVÍ, sinna störfum rektors. Hún hefur undanfarna mánuði verið upptekin við að fylgja eftir nýjustu bíómynd sinni, Á ferð með mömmu, sem Hilmar Oddsson, fagstjóri leikstjórnardeildar KVÍ, skrifaði og leikstýrði.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Börkur hóf sinn blaðamannaferil í Balkanskaga stríðunum á tíunda áratug síðustu aldar og hefur sinnt störfum á átakasvæðum eins og í Afganistan og í Írak.

Ferðin til Úkraínu byrjaði á því að Börkur sýndi fyrstu bíómynd sína, tékknesku myndina Silný kafe, fyrir fullum sal á kvikmyndahátíð í Kosice í Slóvakíu áður en farið var yfir landamærin til Úkraínu til að taka upp fyrir heimildarmyndina.