Samkaup er nýr bakhjarl Meistaramánaðar sem haldin er í október ár hvert. Í Meistaramánuði skora þátttakendur sjálfa sig á hólm og setja sér markmið. Markmiðin geta verið stór og smá en í gegnum árin hafa þátttakendur til að mynda sett sér markmið um að heimsækja ömmu og afa oftar, taka mataræðið í gegn, lesa fleiri bækur, klífa fjöll, mála myndir, hlaupa ákveðið marga kílómetra eða fara fyrr á fætur en aðra daga.
„Við erum ótrúlega stolt af því að gerast bakhjarl Meistaramánaðar. Þetta er eitt vinsælasta verkefni undanfarinna ára þar sem fólk er hvatt til að setja sér markmið og jafnvel deila þeim með öðrum,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Samkaupum. „Meistaramánuður fellur vel að starfsemi og gildum Samkaupa. Félagið hefur sett sér markmið er snúa að heilsueflingu, bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk, og er með sérstöðu og framsækni þegar kemur að heilsutengdum vörum.“
Verkefnið stendur öllum sem hafa áhuga til boða og þannig hafa allir getað verið með í Meistaramánuði. Eina skilyrðið er að fólk setji sér markmið. Fólk hefur haft þann möguleika að skrá sig og sín markmið til leiks á meistaramanudur.is, sett sínar reglur og ákveðið sjálft hvort það vilji deila sínum markmiðum.
Meistaramánuður er hugarfóstur Magnúsar Berg Magnússonar og Þorsteins Kára Jónssonar. Verkefnið kom fyrst til sögunnar árið 2008. Verkefnið vatt fljótt upp á sig og eru skráðir þátttakendur þúsundir á ári hverju. Íslandsbanki hefur verið bakhjarl Meistaramánaðar frá árinu 2017 en nú tekur Samkaup við keflinu.
„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að hafa góðan bakhjarl til að upphefja mátt og dýrð Meistaramánaðar. Samkaup fellur eins og flís við rass að verkefninu enda hefur fyrirtækið verið leiðandi á dagvörumarkaði í ýmsum nýjungum meðal annars í heilsutengdum vörum,“ segir Þorsteinn Kári Jónsson, annar upphafsmanna Meistaramánaðar.
Næsti Meistaramánuður fer fram í október á þessu ári. Að vanda geta þátttakendur sótt dagatöl, playlista og hlaupaprógrömm á meistaramanudur.is auk ýmissa nýjunga.