Kvennaknattspyrnan hefur vaxið mjög hratt á síðustu árum, m.a. þegar litið er til tekna liðanna.

Árið 2019 gerði Barclays bankinn samstarfssamning við efstu deild kvenna í knattspyrnu á Englandi, eða Women Super League, til ársins 2022, og varð fyrsti bakhjarl í sögu deildarinnar. Bankinn endurnýjaði síðan samninginn til enda 2024/25 tímabilsins.

Fyrri samningurinn var 15 milljóna punda virði en sá seinni var tvöfalt verðmætari, jafnvirði 30 milljóna punda, og er stærsti styrktarsamningur í sögu kvennaknattspyrnu í Bretlandi.

Þá gerði Sky þriggja ára sjónvarpssamning við WSL frá og með 2021/22 upp á 8 milljón punda á ári. Þetta var í fyrsta skipti sem sjónvarpsréttindi að kvennaknattspyrnu voru seld ein og sér, en ekki sem viðbót við sjónvarpsréttindi að karlaknattspyrnu.

Þegar litið er til vaxtar kvennaknattspyrnunnar á undanförnum árum má færa rök fyrir því að WSL verði í sterkri samningsstöðu á næsta ári til að semja um enn hærri upphæðir.

Meira fer til leikmanna

Í samræmi við auknar tekjur hafa launin hækkað mikið í WSL á undanförnum árum. Heildarlaun í WSL hafa þannig fjórfaldast á árunum 2018-2022, farið úr 3,7 milljónum punda tímabilið 2017-18 í 17,6 milljónir punda tímabilið 2021/22.

Hins vegar er þessi upphæð vanmetin þar sem fimm af tólf liðum deildarinnar gefa ekki upp launakostnað kvennaliðs síns. Meðal þeirra er Chelsea, sem sérfræðingar áætla að greiði tæplega fimm milljónir punda í laun til leikmanna, hæst allra liða í deildinni.

Verðlaunafé á stórmótum í kvennaboltanum hefur sömuleiðis vaxið hratt. Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) hefur meira en þrefaldað heildarverðlaunaféð frá síðasta heimsmeistaramóti, og hækkað það úr 30 milljónum dala árið 2019 í 110 milljónir dala árið 2023. Þar af fara 10,5 milljónir dala til heimsmeistarans og 7,5 milljónir dala til silfurhafans.

Fjallað er nánar um vöxt kvennaknattspyrnunnar í Viðskiptablaðinu sem kom út 11. ágúst.