Tilnefningar til Edduverðlauna voru kynntar á dögunum. Íslensk framleiðsla í Sjónvarpi Símans hlaut 41 tilnefningu til Edduverðlauna, þar af fékk kvikmyndin Dýrið 13 tilnefningar og sjónvarpsþáttaröðin Systrabönd 10. Sjónvarp símans hlaut fleiri tilnefningar en RÚV og Stöð 2 til samans.

Í tilkynningu frá Símanum segir að undanfarin ár hafi Sjónvarp Símans fjárfest yfir hálfum milljarði króna sjónvarpsefni sem sjálfstæðir framleiðendur skapa.

„Við vitum að áhorfendur viljað vandað og skemmtilegt sjónvarpsefni og það hefur verið okkar leiðarljós,“ er haft eftir Pálma Guðmundssyni, dagskrárstjóra Símans, í tilkynningu. „Að fjárfesta í fjölbreyttu sjónvarpsefni, bæði leiknu efni sem og heimildar- og fræðsluþáttum hefur verið vinningsformúla í okkar augum. Ásamt því að við höfum átt í góðu samstarfi við bæði bandaríska og evrópska framleiðendur, þannig sá ekkert okkar fyrir að raunveruleikaþættir um ástina myndu slá í gegn og trompa risa þáttarröðum þar sem engu er til sparað trekk í trekk. En alltaf er það innlent efni sem skilar stöðugasta áhorfinu og í senn mestu þakklæti áhorfenda.

Við erum himinlifandi að sjá alla okkar frábæru samstarfsaðila sem af hugsjón og sköpunargleði skapa allt þetta frábæra efni, sem við svo færum heim í stofu, fá þessar tilnefningar.“