Uppistandarinn Valdimar Sverrisson hefur þegar safnað 62.555 krónur fyrir Grensásdeild Landspítalans en hann mun hlaupa 10 kílómetra til styrktar deildarinnar í lok mánaðar.
Valdimar greindist með góðkynja heilaæxli sem var fjarlægt með þeim afleiðingum að hann missti sjónina og dvaldi um tíma á Grensásdeild Landspítalans. Það var einnig þar sem hann tók þá ákvörðun að láta gamlan draum rætast og hefja uppistandsferil.
Hann mun einnig flytja uppistandssýningu þann 10. ágúst næstkomandi sem byggð er á styrktarsýningu sem hann hefur áður flutt. Á sýningunni mun Valdimar fara með uppistand auk þess að sýna grínmyndbönd og samkvæmt tilkynningu verður lokaatriðið frumsýning á örmyndinni „EINU SINNI VAR Í REYKJAVÍK“.
Valdimar vonast til að safna 700 þúsund krónum til styrktar Grensásdeild Landspítalans í Reykjavíkurmaraþoninu sem fer fram 19. ágúst næstkomandi.