Kolbrún Óskarsdóttir er 19 ára tónlistarkona úr Vesturbæ Reykjavíkur sem gengur undir listamannanafninu KUSK. Hún eyðir flestum sínum dögum í tónlist, hvort sem það er að pródúsera, semja, spila á tónleikum eða hlusta á tónlist.

Kolbrún vinnur mikið með besta vini sínum og tónlistarmanninum Hrannari. Hann gengur undir listamannanafninu Óviti og pródúseraði meðal annars fyrsta lag Kolbrúnar, Flugvélar.

Fyrir utan tónlistina finnst Kolbrúnu mjög gaman að fara í sund, sitja á kaffihúsi, hitta vini sína og spjalla um lífið.

Hvernig tónlistarsmekk ert þú með og hefur hann breyst mikið í gegnum tíðina?

Kolbrún verður tvítug á þessu ári.
Kolbrún verður tvítug á þessu ári.

Tónlistarsmekkurinn minn hefur breyst rosalega mikið með árunum. En ég bjó stóran hluta ævinnar í Svíþjóð og þar er alveg allt annar menningraheimur hvað varðar tónlist.

Í dag hlusta ég mikið á indie og R&B pop enda sem ég mikið af þannig tónlist sjálf. Ég tók alveg sérstaklega eftir því hvernig tónlistarsmekkurinn minn breyttist þegar ég fór að hugsa meira út í því hvernig lögin voru byggð upp.

Ég viðurkenni alveg að ég hlusta mun minna á tónlist eftir að ég fór að pródúsera og semja en ég bæti bara upp fyrir það með mínum eigin lögum.

Hver er uppáhalds tónlistarmaðurinn þinn og/eða hljómsveit?

Ég er mjög hrifin af bandarísku söngkonunni Remi Wolf. Hún gerir grípandi popp tónlist og er svo ótrúlega góð söngkona!

Annars hef ég dýrkað Domi & JD Beck lengi og er svo spennt að fá að sjá þau live á Iceland Airwaves í haust.

Hverjir eru uppáhalds tónleikarnir sem þú hefur farið á?

Sumarið 2021 uppgötvaði ég frábært venue í Skerjafirðinum sem hét Post-Húsið, þar sem allskyns tónleikar og viðburðir voru haldnir. Þetta var á vegum Post-dreifingar sem vinnur mikið að því að efla grasrótarhreyfinguna í tónlist og annars konar list.

Ég fór þar á tónleika með Inspector Spacetime og ég held að ég hafi aldrei öskrað og hoppað jafn mikið. Ég var nýbúin að uppgötva plötunna þeirra og kunni öll lögin utan að.

Svo var ég líka bara með góðum vinum sem að ég held að sé alltaf mikilvægt til þess að njóta tónleika.

"Mikilvægt að vera með góðum vinum á tónleikum."
"Mikilvægt að vera með góðum vinum á tónleikum."

Hvað er þitt go-to lag í karaoke?

Go-to lagið mitt í karaoke er hundrað prósent Bohemian Rhapsody með Queen. Kemur öllum í stuð, allir kunna textann og þora að syngja.

Hvaða þrjú lög eru í uppáhaldi hjá þér þessa stundina og eru tilvalin á playlistann fyrir sumarið?

  • Manneskja með Flyguy
  • There She Goes með The LA‘s
  • Eternal Sunshine með Lou Vals