Það er svo langt liðið frá árinu 1994, heil 25 ár aftur í grárri forneskju, að símanúmer á Íslandi voru þá fimm stafa og skífusímar enn algengir. Einkatölvubyltingin hafði hafist tíu árum áður og breytt miklu í atvinnulífi, en það vantaði þó herslumuninn til þess að hún breytti sjálfu samfélaginu. Þess var þó ekki langt að bíða, því 1994 var árið sem allt breyttist með tilkomu vefjarins og GSM-síma, en þá gátu undur upplýsingaaldar farið að ljúkast upp með þjóðfélagsbreytingum, sem enn sér ekki fyrir endann á. Langt í frá.

Það má segja að upphafið að þeirri tækni- og upplýsingaöld, sem við lifum á nú, hafi verið tíu árum áður en Viðskiptablaðið var stofnað, því árið 1984 kom fram Macintoshtölvan frá Apple , sem gagngert var hönnuð og smíðuð til þess að vera „tölva fyrir okkur hin“. Áður höfðu komið fram ýmsar einkatölvur, en þær höfðuðu einkum til sérstakra tölvunarða , en Makkinn hafði í för með sér byltingu í almennri notkun á tölvum með notendaviðmóti sem hver og einn gat skilið og músinni, sem auðveldaði alla skjávinnslu til muna og gerði tölvuna að verkfæri fyrir skapandi fólk. Áður en varði komu fram ný forrit eins og Excel og Word , sem gerbreyttu almennri skrifstofuvinnu, skjáumbrotsforritið PageMaker , sem umbylti gerð prentgripa, og myndvinnsluforritið Photoshop .

Þetta skipti beinu máli fyrir stofnun Viðskiptablaðsins. Á nokkrum árum hafði öll vinnsla við blaðaframleiðslu orðið margfalt ódýrari, sem þýddi að það þurfti ekki að hætta stórkostlegum fjármunum til þess að stofna lítið blað til þess að sinna viðskiptalífinu, sem þá var loks að ná einhverjum þroska í landinu.

Tækni í atvinnulífi

Auðvitað hafði viðskipta- og atvinnulíf á Íslandi fylgst með tímanum, nýungagjarnir sem Íslendingar eru, en lengst af hafði það verið kostnaðarsamt, bæði í innkaupum og rekstri. Ekki var langt síðan einokun Pósts og síma á sölu símtækja var aflétt; fyrirtæki í erlendum viðskiptum notuðust gjarnan við fjarrita (telex), sem segja má að hafi verið fjarstýrðar ritvélar, sem sent gátu um orð á sekúndu; ljósritunarvélar voru tiltölulega nýtilkomnar á flestar skrifstofur en verð á þeim lækkaði mjög upp úr 1980; faxtæknin hafði mjög rutt sér til rúms, en með henni mátti senda 2-4 síður á mínútu ef allt gekk vel; stafrænar reiknivélar höfðu að mestu leyst hinar vélrænu af hólmi; en enn sem áður var ritvélin algengasta skrifstofutækið, þó þær hefðu vissulega tekið miklum framförum. Þar sköruðu kúluritvélarnar frá IBM fram úr, með leiðréttingarborðum og alls konar fíneríi, en þær voru svo fullkomnar að gervöllum tölvugeiranum hefur enn ekki tekist að fjöldaframleiða lyklaborð, sem taka þeim fram.

Samt sem áður má segja að fram að því hafi velflestar tækninýjungar á skrifstofum – fyrir utan tölvurnar – verið byggðar á gömlum grunni, mikið til frá sjöunda áratugnum, velflest tækin vélræn í grunninn, þó þau væru orðin rafrænni en áður. Netbúnaður innanhúss var í mikilli gerjun um þessar mundir og Ethernet að festa sig í sessi, en netbúnaður út úr húsi engan veginn almennur og fremur frumstæður. Internetið hafði ekki náð sérstakri fótfestu utan akademíunnar, en símfélög uppteknari af netstöðlum eins og X .400, þar sem rukkað var fyrir hvern staf sem gekk á milli. Þetta var allt í þann veginn að breytast.

GSM kemur

Farsímar höfðu öðlast miklar vinsældir í upphafi tíunda áratugarins, en þar ræddi um síma í NMTkerfinu , sem voru fæstir eiginlegir farsímar eins og við myndum nú kalla þá. Fremur mætti kalla þá flytjanlega síma, ætlaða til þess að hafa í farartækjum, bílum sem bátum. Þó voru um þetta leyti komnir fram eiginlegir farsímar fyrir NMT , sem hafa mátti í höndunum, en þeir voru flestir á stærð við múrstein og komust fæstir fyrir í nokkrum vösum.

Til var handhægari og ódýrari lausn fyrir fólk á ferðinni, sem vildi vera innan seilingar, en hún fólst í símboðstækjunum, sem nutu nokkurra vinsælda um hríð.

Það var hins vegar þegar GSMkerfið var tekið í notkun hinn 16. ágúst 1994, sem Íslendingar tóku við sér, en á næstu árum stækkaði kerfið afar skjótt og þrátt fyrir að símarnir væru ekki ódýrir í fyrstu, þá náðu þeir mjög fljótlega gríðarlegri útbreiðslu. Það breytti afstöðu fólks til fjarskipta á augabragði og allt í einu varð þetta þarfaþing nauðsyn. Þar höfðu SMS einnig mikið að segja, en á næstu árum reyndu menn ýmislegt fyrir sér til þess að gera þau gagnvirk með WAP og ámóta útúrdúrum.

Vefurinn breytir öllu

En auðvitað var það netið sem öllu breytti. Það gerðist með vefnum, sem hafði tekið að breiðast út árið áður, en á Íslandi náði hann fyrst út fyrir háskólasamfélagið og Hafró þegar Miðheimar tóku til starfa vorið 1994 og hófu að bjóða almenningi „myndrænan aðgang“ að Internetinu. Það var vitaskuld allt fremur frumstætt og gagnahraðinn á „upplýsingahraðbrautinni“ háður alls kyns hraðahindrunum. En það var bylting samt.

Nánar er fjallað um málið í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið .