Heimsmeistaramót kvenna í knattspyrnu stendur nú yfir í Ástralíu og á Nýja Sjálandi. Gert er ráð fyrir að nærri tvöfalt fleiri horfi á HM kvenna í ár samanborið við síðasta mót árið 2019, samkvæmt greiningu Euromonitor International.
Sömu þróun má sjá á áhorfendatölum hjá stærstu kvennadeildunum. Þrefalt fleiri mættu á leiki í Women Super League, efstu deild kvenna í knattspyrnu á Englandi, á síðasta tímabili samanborið við tímabilið þar áður.
Kvennaliðin spila öllu jöfnu ekki á sama velli og karlaliðin, heldur á öðrum velli sem tekur færri sæti. En fjölgun áhorfenda hefur leitt til þess að sífellt fleiri leikir eru spilaðir á aðalvellinum, sem hefur um leið skilað auknum tekjum. Þannig mun kvennalið Arsenal spila fimm af ellefu heimaleikjum sínum á Emirates Stadium á komandi tímabili og kvennalið Chelsea mun spila fjóra af ellefu heimaleikjum á Stamford Bridge, heimavelli karlaliðsins.
Gríðarlegur fjöldi áhorfenda mætti á einstaka leiki á síðasta tímabili. 77 þúsund manns mættu á úrslitaleik FA Cup á milli Chelsea og Man Utd, og 60 þúsund manns mættu á 8-liða úrslitaleik Arsenal og Wolfsburg. Þá mættu um 90 þúsund manns á 8-liða úrslitaleik Barcelona og Real Madrid sem haldinn var á síðasta ári. Um er að ræða mjög sambærilegar áhorfendatölur og í úrslitaleikjum karlamegin. Það eru því miklir möguleikar fyrir kvennaboltann að vaxa enn frekar og hraðar.
Fjallað er nánar um vöxt kvennaknattspyrnunnar í Viðskiptablaðinu sem kom út 11. ágúst.