Veiði við Urriðafoss í Þjórsá hefst laugardaginn 1. júní. Einungis tvö ár eru síðan byrjað var að selja veiðileyfi í Urriðafoss en félagið Iceland Outfitters sér um sölu veiðileyfa þar. Óhætt er að segja að veiðin hafi verið frábær þessi tvö ár. Í fyrra veiddust til að mynda 1.330 laxar á svæðinu eða 330 laxar á stöng og sumarið 2017 veiddust 755 laxar á tvær stangir eða 378 laxar á stöng.
Stefán Sigurðsson, hjá Iceland Outfitters , segir að í sumar verði veitt á tólf stangir í Þjórsá, þar af verði fjórar stangir í Urriðafossi og tvær í svæði sem kallar er Urriðafoss b. Þá verði veitt á fjórar stangir í Þjórsártúni og tvær stangir í Kálfholti.
Óvissan hefur haft áhrif
Veiði í Norðurá hefst þriðjudaginn 4. júní. Það ríkir alltaf mikil eftirvænting þegar Norðurá er opnuð enda er fjölmiðlum ávallt boðið að koma til að fylgjast með og oftar en ekki hafa þjóðþekktir Íslendingar verið fengnir til að opna ána síðustu ár.
Einar Sigfússon, sem hefur séð um sölu veiðileyfa í Norðurá frá árinu 2014, segir að í næstu viku verði tilkynnt hverjir muni opna að þessu sinni. Hann segir að sala veiðileyfa hafi gengið með ágætum. Þó hafi hann fundið mjög sterkt fyrir því að óvissan í kringum kjarasamninga og Wow air hafi haft áhrif á söluna á þeim tíma.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .