Listasafn sem var í eigu Paul Allen, einn stofnenda Microsoft, er á leiðinni í uppboð hjá uppboðsfyrirtækinu Christie‘s. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal. Safnið inniheldur 150 listaverk í heildina.

Í listasafni Paul Allen, sem lést fyrir tæpum fimm árum síðan, má meðal annars finna verkið „Small False Start“ eftir Jasper John sem metið er á að minnsta kosti 50 milljón dala. Jafnframt má finna verkið „La Montagne Sainte-Victoire“ eftir Paul Cézanne, en Marc Porter hjá Christie‘s segir að það gæti selst á meira en 100 milljónir dala.

„La Montagne Sainte-Victoire“ eftir Paul Cézanne.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Allur ágóði mun renna til góðgerðarmála, en Allen gaf sjálfur tvo milljarða dala til góðgerðarmála á meðan hann lifði. Gaf hann meðal annars stórar fjárhæðir til rannsókna í lífeðlisfræði, málefni heimilislausra, umhverfismála og menningar.

Uppboðið mun að öllum líkindum slá öll met og telja sérfræðingar að listaverkin muni seljast á milljarð dala í heildina. Til samanburðar keypti Mohammad bin Salman krónprins Sádí Arabíu verkið „Salvator Mundi“ eftir Leonardo Da Vinci á 450 milljón dala árið 2017, en Christie‘s sá um uppboðið á sínum tíma.

Sjá einnig: Lúxussnekkja Paul Allen mætt aftur til landsins

Allen lét sjá sig á Íslandi þónokkrum sinnum, nógu oft til að vera kallaður Íslandsvinur. Hann kom hingað fyrst árið 2010 og kafaði að bandaríska herskipinu Alexander Hamilton, sem er á botni Faxaflóa. Þá lánaði hann einnig vísindamönnum einn af kafbátum sínum til köfunar við Surtsey.