Sjónvarpskokkurinn og matreiðlsubókahöfundurinn Ebba Guðný Guðmundsdóttir deilir einfaldri uppskrift af Chili sin Carne rétti með lesendum.
„Ég veit ekki hvaðan þessi réttur kemur en ég þakka þeim sem á heiðurinn að þessari uppskrift sem er bæði fljótleg og bragðgóð,“ segir Ebba um uppskriftina.
Það er hægt að bera réttinn fram bara eins og hann er en Ebba mælir með að bera hann fram með sýrðum rjóma, nachos, hrísgrjónum/quinoa, gúrkubitum/salati og niðurskornu avókadói með lime yfir, salti og pipar.

Athugið að þið byrjið á því að þvo sætu kartöflurnar, skræla þær og skera í bita. Setjið þær svo á bökunarplötu á bökunarpappír, setjið smá ólífuolíu og salt og pipar á þær og bakið í ofninum.
Innihald:
- 2 sætar kartöflur (ef þær eru stórar er 1 1/2 nóg)
- 3 dl svartar baunir (ég nota 3 dósir ef ég kaupi tilbúnar mínus vatnið)
- 1 laukur
- 4 hvítlauksgeirar
- 1 rauð paprika
- 1 dós/flaska niðursoðnir tómatar
- 3 dl vatn
- 1 msk cumin
- 1 msk oregano
- 1/2 msk paprika
- 1/2 msk reykt paprika (mild)
- 1 1/2 msk grænmetiskraftur
- 1 tsk kókospálmasykur
- 1 tsk hreint kakó
Val: þetta er mjög gott að setja yfir réttinn, en þarf ekki.
- Lime – safinn kreistur yfir í lokin
- Kóríander – sett yfir í lokin
Aðferð:
- Skerið sætar kartöflur í litla bita og bakið í ofni við 200°c í um 25 mín.
- Notið sæmilega stóran pott, setjið 1 dl af vatni í hann og hitið laukinn.
- Bætið papriku og hvítlauk út í.
- Bætið út í 2 dl af vatni, tómötum og kryddi og leyfið því að malla saman við lágan hita þangað til það er orðið mjúkt (um 10 mín.).
- Setjið baunir og sætar kartöflur út í og kryddið meira ef ykkur finnst þurfa.
- Kreistið lime yfir og saxið kóríander yfir.
- Berið fram með soðnum hýðishrísgrjónum og öðru sem ykkur hugnast.

Frá Ebbu:
Það eru margir sem eru ekkert sérstaklega hrifnir af baunum og mikla fyrir sér hluti eins og að leggja í bleyti og sjóða.
Það er auðvitað hægt að kaupa tilbúnar baunir en það er ódýrara að leggja baunir í bleyti, skola vel eftir nokkrar klukkustundir og sjóða.
Þetta er ekki svo snúið af því maður þarf hvorki að standa yfir baununum á meðan þær liggja í bleyti né þegar þær sjóða. Svo er hægt að frysta þær í hæfilegum skömmtum. Þá kostar kannski skammturinn ca. 50-100 kr af lífrænum baunum.
Annað með baunir er það að margir setja allar baunir í sama flokk. Finnast kannski einhverjar ekki góðar og afskrifa þær allar. En baunir eru misjafnar á bragðið og áferðin sömuleiðis. Það er um að gera að prófa sig áfram með opnum huga.
Baunir eru frábær viðbót við fjölbreytt mataræði, góður próteingjafi, trefjaríkar, góðar fyrir bæði þarmaflóruna og ristilinn og kosturinn við þær er ótvírætt hversu ódýrar þær eru.
Hægt er að slá inn í leitarvél á netinu 'Black bean benefits' til að lesa betur um ávinningin af því að borða stundum svartar baunir sem dæmi.
Það er líka frábært sparnaðarráð að drýgja t.d. nautahakk með brúnum linsubaunum. Þær fást í dósum en það er mjög einfalt og fljótlegt að sjóða þær. Þær þarf ekki að leggja í bleyti en ég skola þær alltaf í sigti áður en ég sýð þær. Svartar baunir og nýrnabaunir eru líka góðar í hakkrétti til að drýgja matinn.