Nýtt tímabil í ameríska fótboltanum hefst laust eftir miðnætti á fimmtudaginn þegar Kansas City Chiefs tekur á móti Detroit Lions. Veðbankar eru sammála um að mestar líkur séu á að Kansas hampi titlinum en Detroit er þó spáð ágætis gengi og er í 10. sæti á flestum styrkleikalistum en alls eru 32 lið í NFL-deildinni. Leikurinn gæti því orðið áhugaverður.

Litlar breytingar hafa orðið á þessum liðum á milli ára. Ber helst að nefna að útherjinn JuJu Smith-Schuster er farinn frá Kansas til New England Patriots. Það verður þó seint talið mikið áfall fyrir Kansas því Smith-Schuster skoraði einungis þrjú snertimörk í fyrra.

Sem fyrr verða leikstjórnandinn Patrick Mahomes og innherjinn Travis Kelce í aðalhlutverkum hjá Kansas í vetur. Segja má að gullöld Kansas í NFL standi nú yfir því á síðustu fjórum árum hefur liðið þrisvar farið í Super Bowl og í tvígang staðið uppi sem sigurvegari.

Eagles til alls líklegir

Veðbankar telja að Philadelphia Eagles sé það lið sem muni veita Kansas mesta keppni í vetur en þessi lið léku einmitt til úrslita síðasta vetur. Philadelphia er með gríðarlega öflugt sóknarlið og ber þar helst að nefna leikstjórnandann unga Jalen Hurts, sem sprakk út á síðasta tímabili og útherjana A.J. Brown og DeVonta Smith.

Þau lið sem koma næst á listum veðbankanna sem líklegir sigurvegarar, eru Buffalo Bills, Cincinatti Bengals, San Francisco 49ers. Buffalo liðið er lítið breytt milli ára og mun sem fyrr reiða sig á Josh Allen leikstjórnanda og útherjann Stefon Diggs. Forvitnilegt verður að sjá hvernig hlauparinn ungi, James Cook, mun standa sig en hann tekur við keflinu af David Singletary, sem er farinn til Houston Texans. James er bróðir Dalvin Cook, sem hefur verið á meðal bestu hlaupara deildarinnar undanfarin ár.

Brock Purdy, leikstjórnandi San Francisco 49ers, var valinn síðastur í nýliðavalinu í fyrra.

Hvað gerir Purdy?

Cincinatti er mjög öflugt lið enda lék það til úrslita fyrir tveimur árum en tapaði þá fyrir LA Rams. Liðið er með toppleikmenn í nánast öllum sóknarstöðum. Leikstjórnandinn Joe Burrow er á meðal þeirra bestu í deildinni, sem og útherjarnir Ja‘Marr Chase og Tee Higgins. Þá er hlauparinn Joe Mixon illviðráðanlegur þegar hann er heill heilsu.

Spennandi verður að sjá hvernig San Francisco mun reiða af í vetur og þá sérstaklega hvort leikstjórnandinn Brock Purdy mun halda uppteknum hætti. Hann kom óvænt inn í liðið síðasta vetur og blómstraði, sem er merkilegt fyrir þær sakir að í nýliðavalinu 2022 var hann valinn allra síðastur eða númer 262. Það sem breytti öllu hjá San Francisco var þegar þær nældu í hlauparinn Christian McCaffrey, sem er einn besti, ef ekki besti hlaupari deildarinnar.

Aaron Rodgers gekk til liðs við New York Jets fyrr á árinu.

Augun á Jets

Augu flestra áhugamanna um ameríska fótboltann á New York Jets. Fyrir því er ein ástæða. Goðsögnin Aaron Rodgers gekk til liðs við Jets í sumar eftir að hafa verið hjá Green Bay Packers frá árinu 2005. Rodgers er reyndar orðinn 39 ára en virðist í góðu formi.

Jets er með blöndu af ungum og reyndum leikmönnum. Í ungliðadeildinni eru útherjinn Garrett Wilson og hlauparinn Breece Hall, sem er reyndar að jafna sig eftir liðbandaslit á síðasta tímabili. Fyrrnefndur Dalvin Cook gékk til liðs við Jets í sumar, sem og útherjinn Randall Cobb, sem lék með Rodgers um árabil hjá Green Bay.

Rétt eftir miðnætti á mánudaginn mætast Buffalo Bills og New York Jets. Það verður áhugaverður leikur.