Anna María Pétursdóttir hefur verið ráðin sviðsstjóri starfsmannasviðs Háskóla Íslands, en hún hóf störf 10. ágúst síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Anna María er með tvær meistaragráður, annars vegar í vinnusálfræði og hins vegar í fjármálum. Þá er hún einnig með B.Ed.-próf í kennslufræðum og hefur hún aflað sér viðbótarmenntunar í náms- og starfsráðgjöf og verkefnastjórnun.
Áður en Anna María tók við núverandi stöðu hafði hún starfað m.a. sem framkvæmdastjóri starfsmannasviðs hjá Vífilfelli hf., sem starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar og starfsmannastjóri Seðlabanka Íslands.
Þá hefur Anna María starfað sem stundakennari á sviði stjórnunar og starfsmannamála bæði hjá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík og birt greinar á opinberum vettvangi á sviði nýsköpunar og starfsmannamála. Hún hefur setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja og tekið þátt í samnorrænum rannsóknum á sviði nýsköpunar.