Ellert Hlöðversson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Fjármálasviðs Íslandsbanka. Þetta kemur fram í Kauphallartilkynningu frá bankanum.
Ellert hefur starfað hjá Íslandsbanka frá árinu 2010, nú síðast sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar.
Þar áður gegndi hann stöðu forstöðumanns verðbréfamiðlunar bankans og starfaði þar áður sem verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, þar sem hann leiddi og veitti ráðgjöf varðandi meðal annars samruna og samþættingu fyrirtækja og ýmiss konar fjármögnunarverkefni.
„Það er mikið ánægjuefni að fá Ellert í framkvæmdastjórn þar sem hann mun leiða fjármálasvið bankans. Ellert býr yfir mikilli reynslu af fjármálamörkuðum og þekkir Íslandsbanka afar vel. Reynsla hans af ráðgjöf til fjölda fyrirtækja þvert á atvinnugreinar verður góð viðbót við aðra stjórnendur bankans og mun nýtast vel fyrir bankann á komandi árum,“ segir Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, í tilkynningu.