Erling Tómasson hefur verið ráðinn fjármálastjóri upplýsingatæknifyrirtækisins OK en hann hefur undanfarin ár verið framkvæmdastjóri fjármála og reksturs hjá Carbfix.

Hann starfaði áður hjá Deloitte sem meðeigandi þar sem hann sinnti fjármála- og upplýsingatækniráðgjöf til viðskiptavina.

Erling starfaði um árabil í Svíþjóð, meðal annars hjá Deloitte í Stokkhólmi, þar sem hann stýrði fjárhagslegum áreiðanleikakönnunum á sænskum og alþjóðlegum fyrirtækjum. Þar áður var hann fjármálastjóri hjá sænsku fyrirtækjunum Marine Jet Power og C-RAD.

„Við erum afar ánægð að fá Erling til liðs við OK og bjóðum hann velkominn til starfa. Hann hefur afar mikla reynslu í fjármálastjórnun og rekstri sem mun nýtast fyrirtækinu vel. Hann verður öflug viðbót við sterka og samhenta liðsheild hér hjá OK,“ segir Gunnar Zoéga, forstjóri OK.

Erling er jafnframt með Cand. Oecon. próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og löggildingu til endurskoðunarstarfa frá FLE.