Hreggviður Steinar Magnússon hef­ur verið ráðinn framkvæmdastjóri The Engine, en hann hef­ur frá því í októ­ber 2018 starfað sem leiðtogi stafrænnar markaðssetningar hjá The Engine og Pipar\TBWA. Hreggviður tók við starf­inu þann 1. september og er uppbygging á Norðurlöndum mest aðkallandi verkefni næstu mánaða, að því er segir í fréttatilkynningu.

The Engine er dótturfélag Pipar\TBWA sem sérhæfir sig í rekstri stafrænna auglýsinga á Google, Meta, Snapchat, TikTok, LinkedIn og fleiri stafrænum miðlum ásamt annarri tengdri þjónustu. The Engine hefur gengið frá samkomulagi við TBWA auglýsingastofukeðjuna um að The Engine verði stafrænn armur allra stofanna á Norðurlöndum.

The Engine var stofnað árið 2005 af Kristjáni Má Haukssyni þá undir nafninu Nordic eMarketing. Kristján starfar enn hjá fyrirtækinu sem stafrænn leiðtogi í Osló. Árið 2014 var nafninu breytt í The Engine og starfsemi einnig hafin í Noregi það ár.

The Engine vinnur nú með viðskiptavinum í þremur heimsálfum og er stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins í Bandaríkjunum. Nýverið var opnuð skrifstofa í Kaupmannahöfn og eru því skrifstofur fyrirtækisins nú í Reykjavík, Oslo og Kaupmannahöfn. Unnið er að opnun skrifstofu í Helsinki og Stokkhólmi.

Hreggviður hefur tvær meistaragráður frá Háskólanum í Reykjavík, annars vegar í markaðsmálum en hins vegar í fjármálum fyrirtækja.

Hreggviður Steinar Magnússon:

„Að fá það tækifæri að leiða þá vegferð sem The Engine er á núna þykir mér virkilega spennandi og er ég þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt. The Engine hefur mjög sterkan grunn og með fjölbreyttan hóp starfsfólks víðsvegar að í heiminum. Fótspor okkar er að vaxa á norðurlöndunum með opnun The Engine í Noregi og Danmörku en á döfinni er að opna einnig í Finnlandi. Áhugasvið mitt liggur á þessum tveimur greinum, gagna-drifinni markaðssetningu og fjármálum fyrirtækja. Það vill svo til að nútíma markaðssetning byggir mikið á tölfræði og gögnum, svo þetta fer hönd í hönd.“

Guðmundur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Pipar\TBWA:

„Hreggviður hefur leitt stafræna vegferð Pipar\TBWA og The Engine frá árinu 2018 þegar The Engine varð dótturfyrirtæki Pipar\TBWA. Það hefur heppnast mjög vel og hafa tekjur fyrirtækisins á alþjóðlegum vettvangi aukist verulega. En nú er meirihluti tekna The Engine erlendar tekjur. Einnig hefur geta fyrirtækisins undir stjórn Hreggviðs og Hauks Jarls sett fyrirtækið í hóp eftirsóttustu stofa Evrópu í stafrænum lausnum. Nú er svo komið að tækifæri The Engine á alþjóðlegum markaði krefjast þess að stjórnun þess fyrirtækis sé tekin með fastari tökum og að því sé stjórnað þannig að einbeitingin sé eingöngu á framþróun þess fyrirtækis. Ég er þess fullviss að Hreggviður á eftir að gera það vel.“