Jónína Guðný Magnúsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri innanlandssviðs hjá Eimskipi, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Jónína hefur störf í byrjun febrúar.

Innanlandssviði tilheyra innanlandsflutningar og vörudreifing, vöruhúsa- og frystigeymslustarfsemin ásamt fasteignaumsjón. Þá heyrir dótturfyrirtækið Sæferðir einnig undir sviðið. Á sviðinu starfa tæplega 400 starfsmenn á 18 starfsstöðvum víðsvegar um landið.

Jónína starfaði hjá Eimskipi á árunum 2014-2019 á innanlandssviðinu og sem deildarstjóri gámastýringar. Þá var hún framkvæmdastjóri viðskipta- og þjónustusviðs Terra og nú síðast framkvæmdastjóri gæða- og sjálfbærnisviðs hjá Heklu.

Jónína er með B.Sc. í Iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. í Ferlaverkfræði, stefnumótun og stjórnun frá Delft University of Technology í Hollandi með sérstaka áherslu á flutninga- og vörustýringu. Jónína er gift Bjarna Þór Árnasyni og eiga þau 2 syni.

„Jónína hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og býr einnig að því að þekkja Eimskip og flutningageirann vel. Reynsla hennar, menntun og þekking styrkir stjórnendahóp félagsins enn frekar. Framundan eru spennandi verkefni á innanlandssviðinu og ég hlakka til samstarfsins,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.

„Þá er einstaklega ánægjulegt að vera nú í fyrsta sinn með þrjár konur í framkvæmdastjórn Eimskips sem er í takti við þá vegferð sem félagið hefur verið á síðustu ár.“