Karen María Jónsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna hjá Höfuðborgarstofu og tekur formlega við starfinu þann 15. maí. Alls bárust 30 umsóknir um um starfið.
Karen María lauk M.A. gráðu í stjórnun stofnana með áherslu á menntastofnanir frá Háskóla Íslands árið 2014 og M.A. – diploma í opinberri stjórnsýslu frá sama háskóla árið 2015. Áður hafði hún lokið doktoral gráðu í leikhúsfræðum annarsvegar og hinsvegar M.A. gráðu í þverfaglegri listgreinakennslu frá Háskólanum í Amsterdam árið 2004. Hún lauk jafnframt B.A. gráðu í listdansi frá Listaháskólanum í Arnhem – ArtEZ árið 1998.
Karen María hefur haft umsjón með stærstu hátíðum Reykjavíkurborgar síðustu fimm ár. Þar hefur hún séð um undirbúning, skipulag, markaðssetningu og framkvæmd Vetrarhátíðar, Barnamenningarhátíðar, Menningarnætur, Friðarsúlu Yoko Ono og Jólaborgarinnar Reykjavík. Hún hefur unnið í nánu samstarfi við aðra starfsmenn Höfuðborgarstofu við að þróa hátíðarnar og efla svo að eftir er tekið innan og utan landsteinanna.
Karen María hefur einnig séð um samráð og ráðgjöf til einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja um viðburða- og hátíðarhald sem og stuðlað að fræðslu og þekkingarmiðlun til viðburðahaldara, ferðaþjónustuaðila, háskólanema og annarra með fyrirlestrum, málstofum og greinaskrifum. Hún hefur spilað lykilhlutverk í að markaðssetja hátíðaborgina Reykjavík (Reykjavík Festival City) sem áhugaverðan og kraftmikinn áfangastað ferðamanna. Hún hefur kynnt hátíðaborgina fyrir blaðamönnum og ferðaþjónustuaðilum hérlendis og erlendis í gegnum blaðamannamóttökur, þátttöku í ferðasýningum og fyrirlestra á ráðstefnum og málstofum.