Margrét Helga Kristínar Stefánsdóttir lögmaður hefur hafið störf sem verkefnastjóri á LAGASTOÐ lögfræðiþjónustu ehf.

Hún lauk meistaraprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 2013 og hlaut réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum sama ár. Að námi loknu starfaði hún sem lögmaður á LAGASTOÐ fram til ársins 2016 en hefur síðan þá starfað sem aðstoðarmaður dómara á öllum dómstigum, verið settur héraðsdómari og starfað sem verkefnastjóri stafrænnar umbreytingar málsmeðferðar fyrir dómstólum.

„LAGASTOÐ er ört vaxandi lögmannsstofa þar sem kappkostað er að veita framúrskarandi lögfræðiþjónustu. Ég hlakka til að vera aftur hluti af þeim frábæra hópi sem þar starfar,“ segir Margrét Helga.

Margrét mun starfa sem lögmaður og verkefnastjóri. Á meðal sérsviða Margrétar Helgu eru samkeppnisréttur, regluverk fjármálafyrirtækja og reglur á sviði tækniréttar, sjálfbærni og persónuverndar.

„Margrét Helga er framsækinn og beittur lögmaður sem mun gera okkur kleift að veita viðskiptavinum okkar enn betri þjónustu. Ásamt því að starfa í málflutningsteymi okkar mun Margrét Helga veita fyrirtækjum og skipulagsheildum ráðgjöf um hlítingu við lög og reglur og þær fjölmörgu áskoranir sem þau standa frammi fyrir,“ segir Gizur Bergsteinsson, framkvæmdastjóri LAGASTOÐAR.