Sigurður Jón Björnsson hefur verið ráðinn sviðsstjóri fjármálasviðs Íbúðalánasjóðs. Sigurður Jón er viðskiptafræðingur, cand. oecon. af fjármála- og reikningshaldssviði Háskóla Íslands (1995) og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Þá er Sigurður langt kominn í MS námi í fjármálum fyrirtækja við Háskóla Íslands.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.
Úr tilkynningu:
„Undanfarin fjögur ár hefur Sigurður Jón starfað sem ráðgjafi í fjármálateymi Capacent og sem ráðgjafi hjá verðbréfafyrirtækinu Capacent Fjárfestingaráðgjöf hf. Þar hefur hann m.a. komið að verkefnum sem snúa að fjárfestinga- og rekstrarráðgjöf, stefnumótun, endurskipulagningu og verðmati félaga og að verkefnum fyrir Íbúðalánasjóð tengdum stöðumati leigufélaga sem glíma við skuldavanda. Hann hefur auk þess sérþekkingu á fasteignamarkaði og rekstri fasteignafélaga.Sigurður hefur sinnt hlutverki regluvarðar hjá Capacent og haft með höndum samskipti við Fjármálaeftirlitið sem tengjast leyfisumsókn verðbréfafyrirtækisins.
Árin 2004 – 2007 starfaði Sigurður sem deildarstjóri hagdeildar sameinaðs flugfélags Íslandsflugs og Air Atlanta eftir að hafa verið í stjórn Íslandsflugs frá árinu 1998.
Á árunum 1997 til 2004 tók hann þátt í uppbyggingu Framtaks fjárfestingabanka hf. sem forstöðumaður rekstrar- og fjármálasviðs og var auk þess fjárfestingastjóri fyrir hönd félagsins.
Sigurður hefur komið að rekstri og stjórnun fjölda fyrirtækja sem stjórnarmaður og hefur verið formaður stjórnar hugbúnaðarfyrirtækisins Betware frá stofnun þess árið 1998. Sigurður hefur á undanförnum árum kennt á fjármálanámskeiðum í stjórnendaskóla HR og Capacent.
Sviðsstjóri fjármálasviðs hefur umsjón með fjárreiðum og fjármögnun Íbúðalánasjóðs auk fjár- og áhættustýringar. Bókhald og útlánaeftirlit fellur einnig undir starfsemi sviðsins. Sigurður mun koma til starfa á næstu vikum.“