Skúli Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Marel Fish, sem ber ábyrgð á vöruþróun, sölu, framleiðslu og þjónustu fyrir viðskiptavini Marel í fiskiðnaði.

„Með þessari ráðningu undirstrikar Marel á ný sterka tengingu sína við íslenska fiskiðnaðinn og markmið sitt um að leiða þróun í greininni, bæði á Íslandi og á alþjóðavísu. Marel er staðráðið í að vera áfram leiðandi afl í greininni með sterka áherslu á nýsköpun, framúrskarandi þjónustu og aukið samstarf við viðskiptavini,“ segir í fréttatilkynningu Marels.

Skúli hefur undanfarin ár að mestu unnið að samþættingu nýrra fyrirtækja innan Marel og stýrt verkefnum í Þýskalandi, Danmörku og Bandaríkjunum.

„Ég er spenntur fyrir þessu nýja verkefni,“ segir Skúli. „Rætur Marel liggja í fiskiðnaðinum, og ég er stoltur að leiða þetta svið. Næstu skref verða að byggja á þeim trausta grunni sem fyrir er og færa fiskiðnaðinn á næsta stig, í nánu samstarfi við okkar viðskiptavini.“