Viðsnúningur varð í landsframleiðslu í Bandaríkjunum á þriðja ársfjórðungi, en hún jókst um 2,6% á milli ára. Til samanburður var samdráttur fyrstu sex mánuði ársins.

Hagfræðingar vestanhafs hafa hins vegar áhyggjur af samdrætti á næstu misserum. Gert er ráð fyrir að Seðlabanki Bandaríkjanna muni halda áfram að hækka stýrivexti á næstu fundum til að stemma stigu við verðbólgunni sem mælist nú 8,2%.

Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans er boðuð þann 2. nóvember. Bankinn hefur hækkað stýrivexti um 0,75 prósentustig við hverja af síðustu þremur vaxtaákvörðunum og eru þeir nú á bilinu 3,0-3,25%.

Hækkandi vextir hafa nú þegar hægt á húsnæðismarkaðnum vestanhafs og þá hafa hlutabréfamarkaðir lækkað talsvert það sem af er ári. Þannig hefur S&P 500 úrvalsvísitalan lækkað um 20% frá áramótum.