Félagið Eyja art ehf., sem er í eigu hjónanna Birgis Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, á listaverk upp á 318 milljónir króna.
Félagið keypti listaverk fyrir 12 milljónir á síðasta ári og 71 milljón árið 2020. Félagið er eitt af nokkrum fjárfestingafélögum hjónanna sem ber nafnið Eyja. Í gegnum Eyju félög eiga hjónin meðal annars stóran hlut í Domino’s, Joe & the Juice, Gló og Brauði & co.
Birgir leiddi fjárfestahóp sem keypti Domino’s á Íslandi í fyrra af Domino’s í Bretlandi. Þetta var í þriðja sinn sem Birgir eignast Domino’s hér á landi. Eyja bókfærir 34,6% hlut í Domino’s á Íslandi á 560 milljónir króna um áramótin. Þá er fjórðungshlutur í Domino’s í Noregi metinn á 241 milljón króna.
Þá festi Eyja fjárfestingafélag einnig kaup á Essó húsinu við Suðurlandsbraut 18 á 1,2 milljarða króna líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í febrúar á síðasta ári.