Danska úrvalsvísitalan C25 hefur lækkað átta af síðustu níu viðskiptadögum í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn og hefur gengið farið niður um 7,3%.
Hlutabréfamarkaðurinn í Danmörku var á góðri siglingu í ár en síðustu daga hafa hækkanir vísitalna orðið að engu og er úrvalsvísitalan komin á sama stað og hún var í nóvember í fyrra.
„Það eru aðeins tvö skráð fyrirtæki sem hafa hækkað síðastliðna þrjá mánuði og þau eru Pandora og Novo. Önnur félög í C25 vísitölunni eru í rauðu en vextir eru að setja þrýsting á hlutabréfamarkaðinn,“ segir Otto Friedrichsen, sjóðsstjóri Frmuepleje, í samtali við Børsen.
Danska skartgripafyrirtækið Pandora greindi frá framsæknum áætlunum sínum í síðasta mánuði en Pandora ætlar sér að opna 225 til 275 verslanir til við¬bótar á árunum 2024 til 2026. Tók gengið kipp í kjölfarið en Pandora hefur þó verið á stöðugri uppleið síðastliðið ár.
Áætlanir fyrirtækisins eiga rætur að rekja til ársins 2021 þar sem byrjað var að kanna grundvöll fyrir frekari sókn. Samkvæmt tilkynningunni býst fyrir-tækið við að árlegur vöxtur verði um 7-9% á tímabilinu 2023 til 2026.
Hefur gengi Pandora hækkað um 10% síðastliðinn mánuð og 27% síðastliðna sex mánuði.
Danska lyfjafyrirtækið Novo Nordisk, sem er orðið verðmætasta fyrirtæki Evrópu, hefur einnig hækkað mikið í ár en gengið hefur farið upp um 20% síðastliðna sex mánuði.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er hátt verðmat félagsins hins vegar orðið vandamál þar sem það er orðið alltof stór hluti af bæði C25 vísitölunni og markaðnum í Danmörku.
Ef síðustu 12 mánuðir eru skoðaðir hefur Pandora hækkað um 68% og Novo Nordisk um 48%.
Sjóðstjóri Sampension, Phillip Jagd, segir dönsk hlutabréf einstaklega viðkvæm fyrir stýrivaxtahækkunum en hann segir þó aðra hluti einnig vera spila inn í.
„Þetta hafa verið erfiðir mánuðir þar sem vextir hafa hækkað mikið. Þetta hefur sett þrýsting á markaðinn sem er sögulega mjög viðkvæmur fyrir vaxtahækkunum. Á sama tíma er fjöldi fyrirtækja í vísitölunni þannig að þróunin er viðkvæm fyrir slæmum sértækum fréttum um einstaka fyrirtæki,“ segir Jagd.
Í ágústmánuði höfðu lækkanir Ørsted og ISS mikil áhrif á C25 vísitöluna eftir miklar afskriftir fyrirtækjanna tveggja. Þá hafði 8,6% lækkun Genmab í síðustu viku slæm áhrif á vísitöluna, eftir að fyrirtækið tilkynnti svekkjandi niðurstöður á rannsóknum á nýju lungnakrabbameinslyfi. Í þessari viku hafa hlutabréf í DSV lækkað um 12,7% sem hefur áhrif á vísitöluna og svona mætti lengi telja.