Danska úr­vals­vísi­talan C25 hefur lækkað átta af síðustu níu við­skipta­dögum í Kaup­höllinni í Kaup­manna­höfn og hefur gengið farið niður um 7,3%.

Hluta­bréfa­markaðurinn í Dan­mörku var á góðri siglingu í ár en síðustu daga hafa hækkanir vísi­talna orðið að engu og er úr­vals­vísi­talan komin á sama stað og hún var í nóvember í fyrra.

„Það eru að­eins tvö skráð fyrir­tæki sem hafa hækkað síðast­liðna þrjá mánuði og þau eru Pandora og Novo. Önnur fé­lög í C25 vísi­tölunni eru í rauðu en vextir eru að setja þrýsting á hluta­bréfa­markaðinn,“ segir Otto Fri­edrich­sen, sjóðs­stjóri Frmu­ep­leje, í sam­tali við Børsen.

Danska skart­gripa­fyrir­tækið Pandora greindi frá fram­sæknum á­ætlunum sínum í síðasta mánuði en Pandora ætlar sér að opna 225 til 275 verslanir til við¬bótar á árunum 2024 til 2026. Tók gengið kipp í kjöl­farið en Pandora hefur þó verið á stöðugri upp­leið síðast­liðið ár.

Á­ætlanir fyrir­tækisins eiga rætur að rekja til ársins 2021 þar sem byrjað var að kanna grund­völl fyrir frekari sókn. Sam­kvæmt til­kynningunni býst fyrir-tækið við að ár­legur vöxtur verði um 7-9% á tíma­bilinu 2023 til 2026.

Hefur gengi Pandora hækkað um 10% síðast­liðinn mánuð og 27% síðast­liðna sex mánuði.

Danska lyfja­fyrir­tækið Novo Nor­disk, sem er orðið verð­mætasta fyrir­tæki Evrópu, hefur einnig hækkað mikið í ár en gengið hefur farið upp um 20% síðast­liðna sex mánuði.

Líkt og Við­skipta­blaðið hefur fjallað um er hátt verð­mat fé­lagsins hins vegar orðið vanda­mál þar sem það er orðið allt­of stór hluti af bæði C25 vísi­tölunni og markaðnum í Dan­mörku.

Ef síðustu 12 mánuðir eru skoðaðir hefur Pandora hækkað um 68% og Novo Nor­disk um 48%.

Sjóð­stjóri Sampension, Phillip Jagd, segir dönsk hluta­bréf ein­stak­lega við­kvæm fyrir stýri­vaxta­hækkunum en hann segir þó aðra hluti einnig vera spila inn í.

„Þetta hafa verið erfiðir mánuðir þar sem vextir hafa hækkað mikið. Þetta hefur sett þrýsting á markaðinn sem er sögu­lega mjög við­kvæmur fyrir vaxta­hækkunum. Á sama tíma er fjöldi fyrir­tækja í vísi­tölunni þannig að þróunin er við­kvæm fyrir slæmum sér­tækum fréttum um ein­staka fyrir­tæki,“ segir Jagd.

Í ágúst­mánuði höfðu lækkanir Ørsted og ISS mikil á­hrif á C25 vísi­töluna eftir miklar af­skriftir fyrir­tækjanna tveggja. Þá hafði 8,6% lækkun Gen­mab í síðustu viku slæm á­hrif á vísi­töluna, eftir að fyrir­tækið til­kynnti svekkjandi niður­stöður á rann­sóknum á nýju lungna­krabba­meins­lyfi. Í þessari viku hafa hluta­bréf í DSV lækkað um 12,7% sem hefur á­hrif á vísi­töluna og svona mætti lengi telja.