Í júní voru kynntar tillögur að samþættum aðgerðum til að bæta afkomu ríkissjóðs um samanlagt tæpa 30 milljarða. Þar kom fram að horft væri til þess að draga hraðar úr hallarekstri ríkissjóðs en áformað hafði verið, með það að leiðarljósi að draga úr þenslu og byggja upp styrk ríkissjóðs og þar með getu til að mæta óvæntum áföllum. Boðað var að tillögurnar yrðu útfærðar nánar í komandi fjárlagafrumvarpi.

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, nefnir að aðhaldskrafan sem verið sé að gera á kerfið í heild hafi verið endurskoðuð. Verið sé að vinna að verkefnum eins og Stafrænu Íslandi og sameiningu stofnana sem stuðli að auknu hagræði í ríkisrekstrinum. Þá sé verið að stíga inn í gjaldakerfi ökutækja með því að leggja lágmarks vörugjald á umhverfisvænar bifreiðar.

„Við erum einnig að breyta bifreiðagjöldunum. Við ætlum að láta krónutölu skatta og gjöld hækka til samræmis við verðlag, sem mun skila tæpum þremur milljörðum. Að auki höfum við ýtt aðeins á undan okkur útgjaldatilefnum, sem áður var áformað að kæmu til framkvæmda á næsta ári,“ segir Bjarni.

Aðspurður segir Bjarni stuðning við viðkvæmustu hópana vegna verðbólgunnar vissulega verka gegn markmiði stjórnvalda um að ríkisfjármálin dragi úr verðbólguþrýstingi. Allir hópar séu útsettir fyrir hækkunum á krónutölugjöldum og sköttum. Þetta sé því nokkuð almenn aðhaldsaðgerð. Aftur á móti sýni reynslan og rannsóknir að það séu sérstaklega tekjulágir einstaklingar sem finna mest fyrir verðbólgunni.

„Að gera eitthvað fyrir alla hefði verið þensluhvetjandi og erfitt að réttlæta við þessar aðstæður, en á sama tíma þótti okkur ekki forsvaranlegt að gera ekki neitt fyrir þá sem þegar stóðu höllum fæti. Með því að koma þeim í skjól og í ljósi þess hversu sterk staða heimilanna var í upphafi þessa árs þá teljum við gott borð fyrir báru hjá vel flestum Íslendingum til að fást við tímabundið verðbólguskot.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 15. september 2022.