Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur úrskurðað að afskipti ríkisstjórnar Joes Biden í garð samfélagsmiðlafyrirtækja hafi stangast á við stjórnarskránna. Úrskurðurinn er ákveðinn sigur fyrir repúblikana sem ásaka bandarísk stjórnvöld um ritskoðun á málfrelsi.
Terry Doughty, dómari í Louisiana-fylki, birti 155 blaðsíðna úrskurð sinn í gær en dómsmálið hefur verið mjög umdeilt þar sem það er talið vera leiðarvísir fyrir hlutverk ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því að stjórna efni á samfélagsmiðlum.
Talsmenn forsetans segja að bandaríska dómsmálaráðuneytið fari nú yfir úrskurðinn og munu ákveða svo hver næstu skref verða. „Það er okkar viðhorf að samfélagsmiðlar þurfi að bera ábyrgð á því að efni þeirra hafi mikil áhrif á bandarísku þjóðina,“ segir í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu.
Málið á rætur að rekja til nokkurra ríkissaksóknara repúblikanaflokksins í Missouri og Louisiana sem héldu því fram að bandarísk stjórnvöld hafi þrýst á samfélagsmiðla til að ritskoða efni sem tengdist aðgerðum stjórnvalda gegn Covid-19 og eins málum sem tengdust kosningum.
Dómarinn í málinu líkti hlutverki bandarísku ríkisstjórnarinnar á þeim tíma við „sannleiksráðuneytisins“ í bók George Orwell, 1984. Hann benti einnig á tölvupóstasamskipti milli starfsmanna ríkisstjórnarinnar og Google sem kenndu YouTube um upplýsingaóreiðu þegar kom að bóluefnum.
Hvorki Elon Musk, eigandi Twitter, né talsmenn Meta og Google hafa hingað til tjáð sig um úrskurðinn.