Auðlindafélagið Amaroq Minerals, sem heldur á rannsóknar- og vinnsluheimildum á Grænlandi, vinnur nú að undirbúningi á tilfærslu hlutabréfa félagsins af First North yfir á aðalmarkað.
Fyrsti dagur viðskipta á aðalmarkaði er áætlaður þriðju vikuna í þessum mánuði.
„Tilfærsla Amaroq af First North yfir á Aðalmarkað mun styrkja stöðu félagsins, en frá því að félagið var skráð á First North á síðasta ári höfum við notið góðs af miklum áhuga frá íslenska markaðnum. Ég vil benda áhugasömum á að skoða kynningu félagsins þar sem nánar er farið út í ástæður tilfærslunnar. Kynningin er aðgengileg á vefsíðu félagsins,“ segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq.
Félagið hefur sent inn drög að lýsingu til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og, með fyrirvara um samþykki stjórnar, stefnir að því að leggja inn umsókn til Nasdaq Iceland um töku hlutabréfanna til viðskipta á Aðalmarkaði.