Viðskipti hófust með bréf Arnarlax á First North-markaði Kauphallarinnar nú í morgun. Með Arnarlax eru nú sjö fyrirtæki á First North, en laxeldisfyrirtækið er það langtum verðmætasta á þeim markaði.

Með skráningunni hefur markaðsvirði vaxtarmarkaðarins þar með margfaldast á ný eftir að hafa fallið verulega með brotthvarfi Hampiðjunnar og Amaroq, sem bæði hafa fært sig upp á aðalmarkað á árinu.

Arnarlax hefur verið skráð í norsku Kauphöllina frá árinu 2019 og er því tvískráð frá og með skráningunni á First North hér á landi.

Björn Hembre forstjóri Arnarlax hringdi inn upphaf viðskipta í morgun við hátíðlega athöfn á Bíldudalshöfn, hvar höfuðstöðvar fyrirtækisins eru staðsettar auk þess sem Arnarfjörðurinn sem fyrirtækið dregur nafn sitt af er þar.

Þegar hafa átt sér stað þrenn viðskipti með bréfin fyrir rétt tæpar 7 milljónir króna og hefur verðið hækkað um 4,4% frá 2.260 krónum í fyrstu viðskiptum í 2.360 í þeim síðustu.

„Þessi skráning er mikilvægur liður í okkar vegverð til frekari vaxtar“

Arnarlax er stærsti framleiðandi á eldislaxi á Íslandi en félagið er með átta eldissvæði í rekstri í þremur fjörðum á sunnanverðum Vestfjörðum undir nafni Arnarlax ehf. Höfuðstöðvar fyrirtækisins hafa verið á Bíldudal frá því það var stofnað árið 2010.

„Við erum stolt af því að vera komin á Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn á Íslandi. Starfsemi Arnarlax er vel kunnug Íslendingum sem eru þekktir fyrir ást sína á sjávarfangi og sjálfbærri nýtingu þess. Þessi skráning er mikilvægur liður í okkar vegverð til frekari vaxtar og við erum þakklát fyrir þann áhuga sem við höfum fundið fyrir á meðal íslenskra fjárfesta,“ segir Bjørn Hembre, forstjóri Icelandic Salmon.