Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að stjórn og stjórnendur Landsbankans hafi farið þvert á stefnu stjórnvalda þegar ákvörðun um kaup á TM fyrir 28,6 milljarða króna var tekin. Auk þess hafi eigandanum, ríkissjóði, verið haldan utan við ákvörðun „sem á alla mælikvarða tekst meiriháttar og stefnumarkandi“.

„Það veldur vonbrigðum og áhyggjum að stjórn og stjórnendur Landsbankans virðast ekki telja sig þurfa að haga störfum sínum í samræmi við markaða stefnu eigandans,“ segir Óli Björn í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Ákvörðun bankans hafi verið tekin þrátt fyrir að fjármálaráðherra hafði lýst því yfir í byrjun febrúar að henni hugnaðist ekki að ríkisbanki keypti tryggingafélag í eigu einkaaðila.

Jafnframt vísar hann í stefnuyfirlýsingu stjórnvalda - þar sem kveðið er á um að draga eigi áfram úr eignarhaldi ríkissjóðs í fjármálakerfinu – og eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í eigendastefnunni segi að litið er á eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem tímabundið fyrirkomulag þótt ástæða geti verið til að halda einhverjum þeirra áfram í eigu ríkisins. Stefnt sé þó til framtíðar að fjölbreytti og heilbrigðu eignarhaldi fjármálafyrirtækja.

Óli Björn segir að ekki verði séð að stjórn eða stjórnendur Landsbankans hafi farið eftir fyrirmælum í eigendastefnunni um að, í ljósi opinbers eignarhalds, sé mikilvægt að áherslur félags við stjórn og starfsemi þess styðji við og vinni að markmiðum eiganda með eignarhaldinu.

„Til að svo megi verða þarf aðkoma eiganda að stefnumörkun og markmiðum félagsins að vera skýr og ótvíræð, án þess þó að draga úr hefðbundnum stjórnunarheimildum stjórnar eða skerða ábyrgð stjórnarinnar á rekstri félagsins. Með skýrri stefnu eiganda um málefni félagsins er stjórninni markað skýrt hlutverk og ábyrgð gagnvart eiganda,“ segir í kafla úr eigendastefnu ríkisins sem Óli Björn vísar í.

Stærsta fyrirtæki ríkisins hvað eigir varða

Í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun vikunnar sagði Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans – spurð um þau sjónarmið að kaupin á TM gangi gegn markmiðum stjórnvalda um að draga úr eignarhaldi ríkissjóðs á fjármálamarkaði - að bankinn sé ekki ríkisfyrirtæki heldur almenningshlutafélag í eigu ríkisins sem starfi á samkeppnismarkaði.

„Bankastjóri Landsbankans neitar að horfast í augu við staðreyndir,“ segir Óli Björn.

„Landsbankinn er ríkisfyrirtæki og þótt bankastjóri segi í viðtali við Viðskiptablaðið að mikilvægt sé „að hafa í huga að Landsbankinn er ekki ríkisfyrirtæki“, þá breytir það í engu staðreyndum. Og það var ríkisfyrirtækið Landsbankinn sem ákvað að gera tilboð í og kaupa tryggingafélag.“

Hann bendir á að Landsbankinn er flokkaður sem ríkisfyrirtæki í C-hluta ríkisreiknings. Í lok árs 2022 hafi hlutdeild ríkisins í eigin fé bankans verið bókfærð á liðlega 278 milljarða króna. Í ríkisreikningi sé Landsbankinn skilgreindur með sama hætti og Landsvirkjun, Íslandspóstur, Landsnet, RARIK og raunar Seðlabankinn.

Landsbankinn sé raunar stærsta fyrirtæki ríkisins hvað eignir varðar, samkvæmt yfirliti yfir félög í eigu ríkisins á vef Stjórnarráðsins. Jafnframt sé Landsbankinn sagður ríkisfyrirtæki í ársskýrslu ríkisfyrirtækja.

Varpar ljósi á undirliggjandi mein

Óli Björn segir yfirtöku Landsbankans á TM, „sem er í sinni einföldu mynd ríkisvæðing stórs hluta tryggingamarkaðarins“, varpa ljósi á undirliggjandi mein á íslenskum fjármálamarkaði, þ.e. umsvifum ríkisins á fjármálamarkaði t.d. með eignarhaldi á Landsbankanum.

Yfirtakan sé jafnframt áminning um að búið er að framselja of mikið vald frá kjörnum fulltrúum til stjórna ríkisfyrirtækja, úrskurðarnefnda og embættismanna að sögn Óla Björns.

„Hugmyndir um hlutverk ríkisins hafa á síðustu árum orðið æ þokukenndari, skyldur og verkefnin óskýrari. Ríkið, stofnanir þess og fyrirtæki vasast í hlutum og verkefnum, sem þau eiga ekki að koma nálægt.

Ryðjast inn á samkeppnismarkaði og gera strandhögg hjá einkafyrirtækjum. Ríkisfyrirtæki, hvort heldur undir hatti hlutafélags eða opinbers hlutafélags, hegða sér með þeim hætti sem þeim þykir henta, óháð opinberri stefnumörkun. Þau lúta ekki ægivaldi hluthafanna og hafa litlar áhyggjur af því að kjörnir fulltrúar geti beitt þau aðhaldi eða sett þeim markmið og afmörkun.“