Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, krafðist þess á mánudaginn að fá upplýsingar um hvort og með hvaða hætti Bankasýslan ætlaði að bregðast við gagnvart Landsbankanum eftir kaupin á TM tryggingum.
Þetta kemur fram í bréfi fjármálaráðherra til Bankasýslunnar í byrjun vikunnar sem nú hefur verið gert opinbert.
Þórdís segir þar að kaup Landsbankans á tryggingarfélaginu sé ekki í samræmi við eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki en þar segir að meðferð eignarhluta í slíkum fyrirtækjum skuli „miða að því að efla og styrkja samkeppni á fjármálamarkaði.“
„Þar segir jafnframt að þrátt fyrir að stór hluti fjármálakerfisins sé í eigu íslenska ríkisins sé „stefnan sú að íslensk fjármálafyrirtæki verði í framhaldi í fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi. Með dreifðu eignarhaldi er átt við að eigendahópur sé fjölbreyttur og að fjármálafyrirtæki verði skráð á hlutabréfamarkaði,“ skrifar Þórdís í bréfinu.
Þórdís minnir Bankasýsluna á að meginhlutverk hennar sé „að sjá um samskipti ríkisins við fjármálafyrirtæki sem ríkið á eignarhluti í og tengjast eigandahlutverki þess.“
„Ekki er gert ráð fyrir að fjármálafyrirtæki og ráðuneytið eða ráðherra eigi bein samskipti vegna ákvarðana er snúa að eignarhaldi ríkisins eða rekstri félaganna en líkt og fram kemur í eigandastefnu kemur það „þó ekki í veg fyrir að fjármálafyrirtæki geti upplýst ráðuneytið eða ráðherra um stefnumarkandi mál,“ skrifar Þórdís.
„Ekki til þess fallið að auka traust”
Þórdís bendir einnig á að samkvæmt eigendastefnu skuli Bankasýslan kynna fyrir eiganda fyrirætlanir félags um meiri háttar breytingar á starfsemi þess. Sömuleiðis skuli tilkynna um annað sem er á döfinni hjá félagi og rétt þykir að eigandi sé upplýstur um, „ef sérstök ástæða þykir“.
„Það leiðir af ofangreindu að ekki er ásættanlegt að Landsbankinn beri ekki viðskipti af þessum toga undir eigendur félagsins, ekki síst þann aðila sem fer með langstærsta eignahlut félagsins. Í þessu ljósi er óskað eftir því að Bankasýslan upplýsi ráðuneytið um hvort málið hafi verið borið undir stofnunina eða fengið umfjöllun í stjórn stofnunarinnar og hvað hafi komið fram á þeim fundum. Það er ekki til þess fallið að auka traust á eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum, hafi mál af þessum toga hafi ekki fengið umfjöllun í stjórn Bankasýslu ríkisins á undanförnum mánuðum,” skrifar Þórdís.
„Þá er þess einnig óskað að stofnunin upplýsi hvort og með hvaða hætti hún hyggist bregðast við gagnvart Landsbankanum. Loks er umhugsunarefni hvort koma þyrfti því á framfæri við bankann að ríkissjóður á 98% hlut í félaginu og fer með tæplega 100% atkvæðavægi og er því skilgreint sem ríkisfyrirtæki skv. alþjóðlegum viðmiðum og fellur umsýsla ríkisins með félaginu undir lög um opinber fjármál og lög um Bankasýslu ríkisins. Ráðuneytið ítrekar þá afstöðu sína að félagið sé ríkisfyrirtæki og heyri undir eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki sem ráðherra setur sbr. sömu lög,” skrifar Þórdís að lokum.