Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur svarað gagnrýni Más Wolfgang Mixa, lektors í fjármálum og hagfræði við HÍ, sem sagði í Kastljósi í gærkvöldi að hugmyndir sem fjármálaráðuneytið hefur viðrað um að setja ÍL-sjóð í þrot jafngildi greiðslufalli ríkissjóði. Már, sem er stjórnarmaður hjá Almenna lífeyrissjóðnum, sagðist einnig hafa áhyggjur á að tillögur Bjarna gætu haft í för með sér að lánshæfi ríkissjóðs lækki og vaxtakostnaður ríkisins gæti því „stóraukist“.

„Það mátti skilja á máli stjórnarmannsins að lífeyrissjóðurinn ætti kröfur á ÍL-sjóð,“ skrifar Bjarni í færslu á Facebook í morgun. „Engum ætti að koma á óvart að helst vildu kröfuhafar ekkert vita af þessu máli og einfaldlega fá fullar efndir ÍL- sjóðs á skuldum. Vandinn er bara sá að sjóðurinn á ekki fyrir skuldum.“

„Efndir eru andstaða greiðslufalls“

Bjarni mótmælir harðlega hugmyndum um að slit ÍL-sjóðs myndu líkjast greiðslufalli hjá ríkissjóði.

„Möguleg slit ÍL-sjóðs myndu gjaldfella allar kröfur á sjóðinn. Við það virkjast ríkisábyrgðin sem tryggir uppgjör höfuðstóls og áfallinna vaxta. Ríkið mun því undir öllum kringumstæðum axla ábyrgð á skuldbindingum sínum gagnvart kröfuhöfum sjóðsins, í samræmi við skilmála og lög. Þetta heita efndir á ríkisábyrgðinni. Efndir eru andstaða greiðslufalls.“

Bjarni segir að álit Más um að slit ÍL-sjóðs og uppgjör á ríkisábyrgðinni myndi skaða lánstraust ríkissjóðs standist ekki skoðun.

„Með því að eyða óvissu um uppgjör ÍL-sjóðs og standa við ríkisábyrgðina, sem er svokölluð einföld ábyrgð, er komið í veg fyrir frekari uppsöfnun vandans og gagnsæi og jafnræði tryggt. Slíkt eykur jafnan traust. Óvissa og óþarfa skuldaaukning dregur á hinn bóginn úr trausti. Að halda öðru fram líkist því að telja lánstraustið vaxa með hærri skuldum.“

Bindur vonir við farsæla lausn með viðræðum við kröfuhafa

Í kynningu Bjarna um stöðu ÍL-sjóðs sem kynnt var á fimmtudaginn eru settir fram þrír valkostir sem ríkissjóður er sagður standa frammi fyrir við úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs. Fyrsti valkosturinn sé að leggja sjóðnum til fjármuni til að greiða af skuldum til 2044, annar valkosturinn er slit sjóðsins með lagasetningu og sá þriðji er að ná samkomulagi við kröfuhafa.

„Helst bind ég vonir við að farsæl lausn fáist í málið með viðræðum ríkisins og kröfuhafa sjóðsins þar sem útgangspunkturinn verður að vera lagaleg staða málsins,“ segir Bjarni.

„Ég mun hins vegar ekki samþykkja að við veltum vandanum á undan okkur. Með því verða komandi kynslóðir að bera allt að 150 milljarða byrðar umfram lagalega skyldu ríkisins. Það væri bæði óábyrgt og rangt. Sama hvað þeir sem horfa eingöngu á málið út frá þröngum hagsmunum kröfuhafans segja.“