Ríflega helmingur stjórnenda iðnfyrirækja telur að aðstæður í efnahagslífinu séu góðar.  Tæplega þriðjungur þeirra á von á því að fjárfestingar iðnfyrirtækja aukist á næstu tólf mánuðum. Það sem helst getur hamlað fjárfestingu í iðnaði eru háir vextir og verðbólga. Samkvæmt svörum stjórnendanna þá hefur skortur á iðnmenntuðu starfsfólki aldrei verið meiri.

Um 54% stjórnenda iðnfyrirtækja segja að aðstæður í efnahagslífinu á Íslandi séu góðar fyrir þeirra fyrirtæki samanborið við 44% fyrir ári síðan og 45% árið 2023.  Um 17% stjórnenda telja að aðstæður í efnahagslífinu séu slæmar, sem er svipað og fyrir ári síðan þegar þetta hlutfall var 18% . Árið 2023 töldu 20% stjórnenda efnahagsaðstæður slæmar.

Fyrst var spurt út í þetta atriði árið 2016. Á árunum 2016 til 2018 var mikil bjartsýni á meðal stjórnenda en þá töldu 60 til 65% þeirra aðstæður í efnahagslífinu vera góðar fyrir þeirra fyrirtæki. Þegar heimsfaraldurinn skall á árið 2020 ríkti mikil óvissa en það ár sögðust einungis 20% stjórnenda aðstæður í efnahagslífinu góðar en 52% sögðu þær slæmar.

Þetta kemur fram í könnun sem Outcome gerði fyrir Samtök Iðnaðarins í febrúar og mars. Í könnuninni voru stjórnendur iðnfyrirtækja spurðir nokkurra spurninga  um þróun efnahagsmála, sem og rekstur eigin fyrirtækja og þá aðallega starfsmannamál og fjárfestingar.

Útlitið næstu 6 til 12 mánuði

Stjórnendur voru einnig spurðir að því hvernig þeir meti aðstæður í efnahagslífinu fyrir þeirra fyrirtæki litið til næstu 6 til 12 mánaða miðað við aðstæður í dag.

Niðurstöðurnar sýna að 39% svarenda eru bjartsýnir og telja að aðstæður í efnahagslífinu komi til með að batna á næstu 6 til 12 mánuðum. Fyrir ári var þetta hlutfall 34% og 20% árið 2023. Alls telja 49% stjórnenda að aðstæður í efnahagslífinu haldist óbreyttar en þetta hlutfall var 53% fyrir ári síðan og 51% árið 2023.

Alls telja 12% að aðstæður versni á næstu 6 til 12 mánuðum. Hlutfall þeirra sem telja að aðstæður versni hefur farið lækkandi en það mældist 13% í fyrra og 29% árið 2023.

Þegar niðurstöður eru skoðaðar allt aftur til ársins 2016 sést að einmitt það ár ríkti mesta bjartsýnin en þá töldu 45% stjórnenda að aðstæður í efnahagslífinu kæmu  til með að batna á næstu misserum. Hlutfallið var svipað árið 2021 eða 43%. Mesta svartsýnin ríkti árið 2019 en töldu einungis 17% stjórnenda að aðstæður myndu batna á næstu 6 til 12 mánuðum.

Væntingar um vöxt

Í könnuninni voru stjórnendur beðnir um að svara því hvernig þeir teldu að tekjur þeirra fyrirtækja kæmu til með að þróast á 2., 3. og 4. ársfjórðungi þessa árs í samanburði við sama ársfjórðung í fyrra. Niðurstaðan er sú að mun stærra hlutfall telur að þær muni aukast en dragast saman. Stjórnendurnir vænta því vaxtar í iðnaðinum á næstunni.

Um 42% svarenda telja að tekjur muni aukast á öðrum ársfjórðungi en 21% telja að þær muni dragast saman. Á þriðja ársfjórðungi telja tæplega helmingur svarenda að tekjur muni aukast, eða 47%, og um 17% að þær dragist saman á milli ára. Þá eru horfur um tekjur á fjórða ársfjórðungi sambærilegar þeim á þriðja ársfjórðungi.

Starfsmannamálin

Könnunin leiðir í ljós að 28% stjórnenda telur að starfsmönnum fyrirtækis þeirra muni fjölga á næstu 12 mánuðum. Um 13% telur að starfsmönnum muni fækka á þessu tímabili. Niðurstaðan bendir því til þess að á næstu tólf mánuðum muni iðnfyrirtæki vilja bæta við sig starfsfólki til að mæta auknum umsvifum.

Fyrir ári síðan töldu um 33% stjórnenda að starfsfólki myndi fjölga og 11% að því myndi fækka. Árið 2023 töldu 32% af starfsfólki myndi fjölga á næstu 12 mánuðum og 12% af því myndi fækka.

Það kemur ekki á óvart að mesta bjartsýni stjórnenda að þessu leyti var árið 2022 þegar heimsfaraldurinn var í rénun. Þá töldu um 39% að starfsfólki myndi fjölga á næstu 12 mánuðum.

Nánar er fjallað um könnun SI í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.