„Sjaldan er góð vísa of oft kveðin: viðskiptaafgangur leiðir ekki endilega til gengisstyrkingar. Ef það væri raunin væri líf efnahagsgreinanda mun þægilegra og afrekaskráin farsælli en raun ber vitni.“
Svona hefs gengisspá Arion banka til ársins 2026 sem finna má í efnahagsspá bankans sem kom út í gær.
Gengisspá bankans í hagspánni ber heitið; „Bölvun greiningaraðila - gengisspár“
Samkvæmt greiningardeild bankans mun íslenska krónan styrkjast en veikjast síðan eftir því sem líður á spátímann.
Segir greiningardeildin ástæðuna fyrir þessu vera einfalda þar sem flæði á gjaldeyrismarkaði mun styðja við krónuna, bæði í gegnum utanríkisverslun sem og fjármagnsflæði.
„Kaup erlendra aðila á ríkisskuldabréfum hafa færst í vöxt að undanförnu og teljum við að áhuginn muni aukast á yfirstandandi ári, enda vextir hér á landi háir í alþjóðlegum samanburði. Þá reiknum við ekki með mikilli aukningu í gjaldeyriskaupum lífeyrissjóða. Margir sjóðanna eru nú þegar nálægt hámarksgjaldeyriseign, en hámarkið stendur í 51,5%, og mörg fjárfestingarverkefni í farvatninu innanlands sem sjóðirnir eru þátttakendur í,“ segir í hagspá Arion banka.
Að mati bankans er raungengi krónunnar mjög sterkt til lengri tíma litið eftir því sem dregur úr samkeppnishæfni þjóðarbúsins.
„Í íslenskri hagsögu er það ávallt nafngengið sem gefur eftir til að leiðrétta raungengið, og teljum við að það verði einnig raunin að þessu sinni,“ segir í hagspá Arion Banka.
Raungengi krónunnar er mjög hátt um þessar mundir, hvort sem litið er til launa eða verðlags.
Samkvæmt Arion banka eru efnahagshorfur, og horfur um útflutning, nokkuð góðar hér á landi svo líklega getur hagkerfið viðhaldið hærra raungengi en áður.
Hins vegar óttast greiningardeildin jafn hátt raungengi og spáin gerir ráð fyrir en hægt er að lesa hagspá Arion Banka hér.