Borgarráð hefur samþykkt að leyfa aukningu hlutafjár Ljósleiðarans ehf. um allt að 3.250 m. kr. að nafnverði. Þetta samsvarar 33,33% aukningu heildarhlutafjár félagsins. Borgarráð hefur gert það að skilyrði að að eignarhluti Orkuveitu Reykjavíkur í félaginu fari ekki undir 66,67%. Gangi þessi áform eftir er fyrirséð að þriðjungur Ljósleiðarans verði í eigu fjárfesta. Málið mun fara til lokaafgreiðslu hjá borgarstjórn innan tíðar.

Borgarstjóri gagnrýnir stjórnendur Ljósleiðarans

Athygli vekur að í tillögu borgarstjóra um málið til Borgarráðs kemur fram að hlutafjáraukningin sé viðbragð við ákvörðun stjórnenda Ljósleiðarans um þriggja milljarða kaup á stofnneti Sýnar: „Nýjar aðstæður á markaði eftir sölu Símans hf. á Mílu hf. útheimtu viðbrögð af hálfu Ljósleiðarans ehf. og endurnýjun á samningum við stærstu viðskiptavini fyrirtækisins.“

Borgarstjóri sér ástæðu til að gagnrýna vinnubrögð Ljósleiðarans: „Engu að síður hefði verið eðlilegt að efna til umfjöllunar um þau á vettvangi eigenda, ekki síst þar sem ljóst er að þessar ákvarðanir þarfnast fjárframlaga til að styrkja grunnrekstur og fjárfestingar Ljósleiðarans ehf. Niðurstaða sviðsmyndagreiningar er að aukið hlutafé félagsins er æskilegt og allt að því óhjákvæmilegt við núverandi aðstæður.“

Stjórn OR falin hlutafjáraukning

Orkuveita Reykjavíkur mun bera ábyrgð á útgáfu nýs hlutafjár sem verður háð samþykki Borgarráðs, en stjórn Ljósleiðarans hefur fengið umboð til þess að ákvarða útboðsgengi og greiðslukjör. Auknu hlutafé verður varið til uppgreiðslu skulda Ljósleiðarans og til þess að styrkja samkeppnisstöðu félagsins, að því er segir í tilkynningu.

Skuldir Ljósleiðarans námu við lok síðasta árs 19,9 ma. kr og hlutfall eigin fjár 40,4%. Félagið var rekið með 87 milljón króna tapi á síðasta ári samkvæmt ársreikningi.