Þýska flugfélagið Condor hefur staðfest að það muni ekki fljúga til Akureyrar og Egilsstaða næsta sumar. Túristi greinir frá þessu en mikil eftirvænting hefur verið bæði fyrir norðan og austan vegna fyrirhugaðs flugs.

Condor áætlaði í fyrra að hefja áætlunarflug frá Frankfurt til Akureyrar og Egilsstaða í sumar en fallið var frá þeim áformum rúmum einum og hálfum mánuði áður en flug átti að hefjast.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri innanlandsflugvalla Isavia, sagði í mars á þessu ári að þrátt fyrir að verkefnið hefði ekki gengið upp í ár væri enn von um millilandaflug milli Þýskalands og Norður- og Austurlands árið 2024.

Condor ætlaði sér að fljúga til Akureyrar og Egilsstaða á þessu ári.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

„Það eru margir þættir sem leiddu til þessarar niðurstöðu, markaðssetningin erlendis hófst ekki nógu snemma til að ná flugi fyrir árið í ár og breyttar markaðsforsendur áttu einnig sinn þátt í að svona fór. Áhugi flugfélaga á millilandaflugi til Norður- og Austurlands fer stöðugt vaxandi, við finnum það mjög sterkt á ferðakaupstefnum og vinnustofum erlendis,” sagði Sigrún á þeim tíma í samtali við Túrista.

Johanna Tillmann, talskona Condor, greindi frá því svo í morgun að Ísland yrði ekki hluti af væntanlegri sumaráætlun flugfélagsins á næsta ári heldur.