Samkvæmt nýrri rannsókn Copenhagen Business School (CBS) nýta danskir ellilífeyrisþegar afar lítið af ævisparnaði sínum á efri árum.
Lífeyrissparnaður Dana hefur minnkað töluvert á síðustu árum en samkvæmt rannsókninni halda Danir áfram að bæta í auð sinn alveg til áttræðisaldurs.
Að meðaltali er handbært fé áttræðs Dana, sem eru ekki tengd lífeyrisréttindum, um fjórfalt meiri en árslaun þeirra eftir skatt áður en þeir fara á eftirlaun.
Jesper Rangvid, prófessor í fjármálum hjá CBS, segist eiga erfitt með að finna rök fyrir því af hverju Danir vilji ekki eyða sparnaðinum sínum og njóta lífsins á efri árum.
„Það eru vísbendingar um að fólk sé að lifa einungis á lífeyrissjóðsgreiðslunum sínum. Tekjurnar sem koma inn eru tekjurnar sem þú eyðir. Ef þú færð 300 þúsund danskar krónur úr lifeyrissjóðinum þínum þá eyðirðu 300 þúsund krónum hvort sem þú átt milljón eða tíu milljón danskar krónur inn á bankareikningi þínum,“ segir Rangvid.
Rangvid, sem er einn höfunda rannsóknarskýrslunnar, segir að það séu ekki bara Danir sem haldi gjarnan í sparnaðinn sinn á efri árum en það sé þó sérstakt að Danir séu að gera þetta sökum þess hversu öflugt opinbera kerfið er.
„Í öðrum löndum þarftu að borga fyrir spítalaheimsóknir, hjúkrun og lyf og því er skiljanlegt að fólk sitji á sparnaði sínum í varúðarskyni. Í Danmörku er þetta allt meira og minna gjaldfrjálst þannig þetta á ekki við hér,“ segir Rangvid.
Camilla Schjølin Poulsen, hagfræðingur hjá PFA, stærsta lífeyrissjóðs Danmerkur, segir að öflugar lífeyrissjóðsgreiðslur geri það auðvelt fyrir Dani að taka ekki of mikið af sparnaði sínum.
„Þú þarft vísvitandi að ákveða að skera á ævisparnaðinn þinn sem getur verið erfitt ef þú hefur eytt allri ævi í að safna honum. Það er stundum þannig að við þurfum að kýla fólk í magann og segja „af hverju safnaðiru öllu þessu fé ef þú ætlaðir síðan ekki að nota það,“ segir Poulsen í samtali við Børsen.
Hún mælir með því að fólk tvískipti sparnaðinum sínum þar sem hluti ævisparnaðarins fari til erfingja og þá sé hluti sparnaðarins lagður til hliðar til að njóta lífisins á efri árum.