Sam­kvæmt nýrri rannsókn Copen­hagen Business School (CBS) nýta danskir elli­líf­eyrisþegar afar lítið af ævi­sparnaði sínum á efri árum.

Líf­eyris­sparnaður Dana hefur minnkað tölu­vert á síðustu árum en sam­kvæmt rannsókninni halda Danir áfram að bæta í auð sinn alveg til áttræðis­aldurs.

Að meðaltali er handbært fé áttræðs Dana, sem eru ekki tengd lífeyrisréttindum, um fjórfalt meiri en árslaun þeirra eftir skatt áður en þeir fara á eftirlaun.

Jesper Rang­vid, pró­fessor í fjár­málum hjá CBS, segist eiga erfitt með að finna rök fyrir því af hverju Danir vilji ekki eyða sparnaðinum sínum og njóta lífsins á efri árum.

„Það eru vís­bendingar um að fólk sé að lifa einungis á líf­eyris­sjóðs­greiðslunum sínum. Tekjurnar sem koma inn eru tekjurnar sem þú eyðir. Ef þú færð 300 þúsund danskar krónur úr lif­eyris­sjóðinum þínum þá eyðirðu 300 þúsund krónum hvort sem þú átt milljón eða tíu milljón danskar krónur inn á banka­reikningi þínum,“ segir Rang­vid.

Rang­vid, sem er einn höfunda rannsóknar­skýrslunnar, segir að það séu ekki bara Danir sem haldi gjarnan í sparnaðinn sinn á efri árum en það sé þó sér­stakt að Danir séu að gera þetta sökum þess hversu öflugt opin­bera kerfið er.

„Í öðrum löndum þarftu að borga fyrir spítala­heimsóknir, hjúkrun og lyf og því er skiljan­legt að fólk sitji á sparnaði sínum í varúðar­skyni. Í Dan­mörku er þetta allt meira og minna gjald­frjálst þannig þetta á ekki við hér,“ segir Rang­vid.

Camilla Schjølin Poul­sen, hag­fræðingur hjá PFA, stærsta líf­eyris­sjóðs Dan­merkur, segir að öflugar líf­eyris­sjóðs­greiðslur geri það auðvelt fyrir Dani að taka ekki of mikið af sparnaði sínum.

„Þú þarft vís­vitandi að ákveða að skera á ævi­sparnaðinn þinn sem getur verið erfitt ef þú hefur eytt allri ævi í að safna honum. Það er stundum þannig að við þurfum að kýla fólk í magann og segja „af hverju safnaðiru öllu þessu fé ef þú ætlaðir síðan ekki að nota það,“ segir Poul­sen í sam­tali við Børsen.

Hún mælir með því að fólk tví­skipti sparnaðinum sínum þar sem hluti ævi­sparnaðarins fari til erfingja og þá sé hluti sparnaðarins lagður til hliðar til að njóta lífisins á efri árum.