Alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækið Deloitte skoðar nú möguleikann að skipta upp endurskoðunar- og ráðgjafarstarfsemi sinni í aðskildar rekstrareiningar, samkvæmt heimildum Wall Street Journal. Talsmaður Deloitte hafnaði þó að slík uppstokkun væri til skoðunar og sagði félagið ætla að fylgja núverandi viðskiptalíkani áfram.

Nýlega var greint frá því að Ernst & Young væri að kanna skráningu eða sölu á ráðgjafarstarfsemi sinni og hefði ráðið fjárfestingarbankana JPMorgan Chase og Goldman Sachs sem ráðgjafa við það ferli. EY telur að uppstokkunin muni auðvelda ráðgjafarhluta félagsins að nálgast nýja viðskiptavina vegna þeirra skilyrða sem gilda um að selja ráðgjafarþjónustu til viðskiptavina á endurskoðunarhliðinni.

Sjá einnig: EY skoðar skráningu á markað

Heimildir WSJ herma að Deloitte hafi leitað til Goldman Sachs eftir að fréttir bárust af mögulegri uppstokkun hjá Ernst & Young. Hins vegar séu hugmyndirnar enn á frumstigi hjá Deloitte.

Í umfjölluninni er lýst því að mögulegur aðskilnaður á endurskoðunar- og ráðgjafarstarfsemi félaganna yrði róttækasta breytingin í endurskoðunarbransanum á síðustu áratugum. Þá er talið að meðeigendur félaganna gætu átt von á töluverðum ávinningi við uppstokkunina.