Olíu­risinn Exxon Mobil er í þann mund að klára kaup Pioneer Natur­al Resources sem sér­hæfir sig í vökva­broti (e. fracking).

Sam­kvæmt The Wall Street Journal er kaup­verðið í kringum 60 milljarða Banda­ríkja­dala sem sam­svarar rúm­lega 8200 milljörðum ís­lenskra króna.

Við­ræðurnar eru langt komnar og er búast við því að kaup­samningur liggi fyrir á næstu dögum. Sam­kvæmt WSJ mun sam­runinn hafa gríðar­leg á­hrif á olíu­um­hverfi Banda­ríkjanna.

Markaðs­virði Pioneer er í kringum 50 milljarða dali en ef kaupin ganga eftir verður þetta stærsti sam­runi á olíu­markaði síðan Exxon og Mobil runnu saman árið 1999.

Með kaupunum kemur Exxon Mobil sér í kjör­stöðu á olíu­svæðum í Vestur-Texas og Nýju Mexíkó sem olíu­risinn hefur áður sagt að stefnan sé að sækja fram þar.

Markaðs­virði Exxon er 436 milljarðar dala svo að yfir­takan á PNR ætti ekki að vera fyrir­tækinu um of. Olíu­risinn skilaði einnig met­hagnaði í fyrra og er eigið fé fé­lagsins í hæstu hæðum.