Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) ógilti í byrjun mánaðarins 8 milljarða dala kaup Illumina, bandarísks líftæknifyrirtækis sem starfar m.a. á sviði krabbameinsrannsókna, á bandaríska sprotafyrirtækinu Grail sem hefur þróað nýja tækni við skimun krabbameins. Samkeppniseftirlitið (SKE) vekur athygli á þessarri „sögulegu“ ákvörðun ESB.
„Niðurstaðan er sú að ESB hefur ógilt yfirtöku stórs líftæknifyrirtækis á mikilvægu sprotafyrirtæki og þar með skapað aðstæður fyrir hraða framþróun á sviði krabbameinsskimana,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SKE í frétt á vef stofnunarinnar.
Samkeppniseftirlitið, ásamt systureftirlitum sínum í Evrópu, óskaði eftir að framkvæmdastjórn ESB rannsakaði samrunann sem var ekki tilkynningarskyldur „en gat þó haft skaðleg áhrif á baráttuna gegn krabbameini, þar á meðal hér á landi,“ segir Páll Gunnar.
SKE bendir á þetta sé í fyrsta skipti sem framkvæmdastjórn ESB ógildi samruna sem ekki var tilkynningarskyldur, þar sem veltumörk slíkrar skyldu voru ekki uppfyllt.
„Einnig varpar málið ljósi á þýðingu samkeppnisreglna þegar sprota- og nýsköpunarfyrirtæki eiga í hlut, þar á meðal á heilbrigðissviði.“
Samkeppniseftirlitið segist hafa óskað eftir að kaup Illumina á Grail yrðu rannsökuð vegna mögulegra neikvæðra áhrifa sem samruni líftæknifélaganna gæti haft. Samruninn gæti meðal annars leitt til hærra verðs, skertra gæða og minni nýsköpunar á mörkuðum er snerta krabbameinsskimanir að mati SKE. Niðurstaða framkvæmdastjórnar ESB staðfesti að samruninn hefði haft neikvæð áhrif á samkeppni á markaði fyrir krabbameinsskimanir.
„Illumina býr yfir ákveðinni tækni sem gerir öðrum félögum, líkt og Grail, ókleift að starfa án þess að vera í samstarfi við félagið. Með kaupum Illumina á Grail, hefði fyrirtækið hafið beina samkeppni á sviði krabbameinsskimunar, í stað þess að selja slíkum fyrirtækjum fyrst og fremst nauðsynlega tækni.“
Illumina og Grail hófu að framkvæma samrunann seint á síðasta ári. Þau neyðast til að vinda ofan af samrunanum og tryggja sjálfstæði Grail að nýju verði ákvörðun framkævmdastjórnar ESB endanleg niðurstaða í málinu.
Grail ekki með tekjur í Evrópu
Viku áður en ákvörðun framkvæmdstjórnar ESB var birt hafði stjórnsýsludómari í Bandaríkjunum dæmt yfirtöku Illumina á Grail í vil. Alríkisviðskiptanefnd Bandaríkjanna (FTC) hefur þó áfrýjað dómnum.
Breska dagblaðið Financial Times greindi frá því í byrjun mánaðarins að Illumina hyggist áfrýja ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB, m.a. á grundvelli þess að lögsaga eftirlitsaðila sambandsins nái ekki til samruna á milli tveggja bandarískra fyrirtækja. Jafnframt sé yfirtökufélagið ekki með neinar tekjur í Evrópu.
Þá hyggst Illumina færa rök fyrir því að líftæknifyrirtækið sé í raun ekki með beina samkeppnisaðila á því sviði sem það starfar á og að ESB sé með þessu að koma í veg fyrir björgun mannslífa með því að ógilda samruna sem sé til þess fallinn að skala upp tækni Grail við skimun eftir krabbameini á fyrstu stigum.
Í umfjöllun FT segir að eftirlitsaðilar í Brussel vilji nota þennan samruna sem sýnidæmi um aukin völd sambandsins. Evrópudómstóll í Lúxemborg úrskurðaði í júlí að framkvæmdastjórn ESB hefði heimild til að rýna í samrunann. Þá sé mjög sjaldgæft að eftirlitsaðilar komist að mismunandi niðurstöðu í samrunamálum.