Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 20% frá ársbyrjun. Þetta er meiri lækkun en á helstu hlutabréfavísitölum heimsins á sama tíma að Nasdaq-vísitölunni undanskilinni. Mohamed A. El-Erian, fyrrverandi forstjóri Pimco, sem er stærsti skuldabréfasjóður heims, birti í dag á Twitter-síðu sinni samanburð á þróun hlutabréfaverðs frá ársbyrjun beggja vegna Atlantsála auk Kína og Japans.
Þar sem að hátækni- og vaxtafyrirtæki hefur tekið mestan skellinn síðan að syrta tók í álinn á hlutabréfamörkuðum ætti ekki að koma neinum á óvart að Nasdaq-vísitalan hefur lækkað mest frá ársbyrjun í þessum samanburði eða um 22,78%. En það hlýtur að vekja sérstaka athygli að úrvalsvísitalan hefur lækkað um litlu minna eða um 20% sé litið til samsetningar hennar. Aðeins þeir sem eru með stöðu í Bitcoin standa verr að vígi en þeir sem fjárfestu í Nasdaq og úrvalsvísitölunni en rafmyntin hefur lækkað um 31,5% það sem af er ári.
Rétt er að benda á að úrvalsvísitalan OMXI10 er ekki leiðrétt fyrir arðgreiðslum ólíkt hinum vísitölunum í samanburðinum. Sé hún leiðrétt fyrir arðgreiðslum hefur úrvalvísitalan, sem nær utan um hlutabréf tíu félaga Kauphallarinnar sem mestu viðskiptin eru með, lækkað um 17,6% frá áramótum. Einnig má benda á að arðsleiðrétt OMXIGI-vísitalan, sem nær utan um öll félög á aðalmarkaðnum, hefur lækkað um 9,9% í ár.
Dow Jones-vísitalan hefur lækkað um 9,21% og SPX um 13,3%. Evrópska vísitalan hefur Stoxx Euro 600 hefur lækkað un 9% en FTSE-vísitaln hefur haldið sjó og hefur hækkað um 3%. Lækkunin í kauphöllinni í Sjanghæ nemur 12,46% og um 5% í Japan.