Alveg frá því að bandaríska fjár­festingafélagið KKR keypti 10% hlut í danska líftækni­fyrir­tækinu Nor­dic Bioscience fyrir 100 milljónir Bandaríkja­dala árið 2021 hefur staðið til að skrá fyrir­tækið á markað.

Sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen er Claus Christian­sen, stofnandi Nor­dic Bioscience, loksins til­búinn að selja hluti sína en hann og eigin­kona hans eiga enn 74% hlut í fyrir­tækinu.

Claus, sem er 82 ára gamall, er sagður hafa ráðið Nor­dea, UBS og JP­Morgan til að sjá um út­boðið en um er að ræða ævi­starf Claus sem hefur verið braut­ryðjandi í líftækni­rannsóknum í hálfa öld.

Claus varði doktors­verk­efni sitt aðeins 34 ára gamall en síðan þá hefur hann skrifað um þúsund rit­rýndar rannsóknir. Rannsóknir Claus hafa snúist að mestu um öldrun og beinþynningu en hann var um tíma nefndur „konungur beinanna“ í fjölmiðlum.

Árið 1989 stofnaði hann ásamt eigin­konu sinni, Bente Juel Riis Christian­sen, Osteo­meter Meditech.

Hann seldi fyrir­tækið fyrir 400 milljónir danskra króna árið 1994 og nýtti féð til að fjár­festa í systur­félaginu Osteo­meter Biot­ech sem síðar varð Nor­dic Bioscience.

Skrifstofur Nordic Bioscience í Herlev í Danmörku.
Skrifstofur Nordic Bioscience í Herlev í Danmörku.

Að sögn Børsen er félagið ein­stakt að því leyti að það hefur í gegnum alls kyns efna­hags­sveiflur hefur það aldrei þurft að sækja fjár­magn frá utan­aðkomandi fjár­festum heldur hefur það ávallt verið í stjórn og eigu Claus.

„Við erum á þeim aldri núna að við getum ekki gert mikið og því er þörf á nýju fólki. Við höfum rætt það lengi hvernig væri best að gera þetta,“ segir Claus og vísar þar í samtöl við eigin­konu sína.

Spurður um af hverju hann valdi að fara í frumút­boð, segir Claus að það sé eðli­legt skref í að gera félagið enn stærra.

„Við erum að búa til fyrir­tæki sem verður risastórt og því mun vegna vel. Það gengur vel nú þegar en til þess að vegna enn betur þarf það að verða stærra,“ segir Claus í sam­tali við Børsen.

Hann segir jafn­framt að félagið skorti ekki fjár­magn og það sé í stöðugum hagnaði.

Að hans sögn hefur ekki verið ákveðið hvort það verði gefnir út nýir hlutir í út­boðinu sam­hliða því að hjónin selji sína hluti.

Sam­kvæmt Børsen er virði félagsins í kringum 10 milljarðar danskra króna sem sam­svarar um 200 milljörðum ís­lenskra króna.

Vonir standa til að ef frumút­boðið verði vel heppnað verði það hvatning fyrir skráningu fleiri félaga í dönsku Kaup­höllina.