Alveg frá því að bandaríska fjárfestingafélagið KKR keypti 10% hlut í danska líftæknifyrirtækinu Nordic Bioscience fyrir 100 milljónir Bandaríkjadala árið 2021 hefur staðið til að skrá fyrirtækið á markað.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen er Claus Christiansen, stofnandi Nordic Bioscience, loksins tilbúinn að selja hluti sína en hann og eiginkona hans eiga enn 74% hlut í fyrirtækinu.
Claus, sem er 82 ára gamall, er sagður hafa ráðið Nordea, UBS og JPMorgan til að sjá um útboðið en um er að ræða ævistarf Claus sem hefur verið brautryðjandi í líftæknirannsóknum í hálfa öld.
Claus varði doktorsverkefni sitt aðeins 34 ára gamall en síðan þá hefur hann skrifað um þúsund ritrýndar rannsóknir. Rannsóknir Claus hafa snúist að mestu um öldrun og beinþynningu en hann var um tíma nefndur „konungur beinanna“ í fjölmiðlum.
Árið 1989 stofnaði hann ásamt eiginkonu sinni, Bente Juel Riis Christiansen, Osteometer Meditech.
Hann seldi fyrirtækið fyrir 400 milljónir danskra króna árið 1994 og nýtti féð til að fjárfesta í systurfélaginu Osteometer Biotech sem síðar varð Nordic Bioscience.
Að sögn Børsen er félagið einstakt að því leyti að það hefur í gegnum alls kyns efnahagssveiflur hefur það aldrei þurft að sækja fjármagn frá utanaðkomandi fjárfestum heldur hefur það ávallt verið í stjórn og eigu Claus.
„Við erum á þeim aldri núna að við getum ekki gert mikið og því er þörf á nýju fólki. Við höfum rætt það lengi hvernig væri best að gera þetta,“ segir Claus og vísar þar í samtöl við eiginkonu sína.
Spurður um af hverju hann valdi að fara í frumútboð, segir Claus að það sé eðlilegt skref í að gera félagið enn stærra.
„Við erum að búa til fyrirtæki sem verður risastórt og því mun vegna vel. Það gengur vel nú þegar en til þess að vegna enn betur þarf það að verða stærra,“ segir Claus í samtali við Børsen.
Hann segir jafnframt að félagið skorti ekki fjármagn og það sé í stöðugum hagnaði.
Að hans sögn hefur ekki verið ákveðið hvort það verði gefnir út nýir hlutir í útboðinu samhliða því að hjónin selji sína hluti.
Samkvæmt Børsen er virði félagsins í kringum 10 milljarðar danskra króna sem samsvarar um 200 milljörðum íslenskra króna.
Vonir standa til að ef frumútboðið verði vel heppnað verði það hvatning fyrir skráningu fleiri félaga í dönsku Kauphöllina.