Fiskeldi í Afríku hefur vaxið til muna undanfarin ár og er nú orðin ein af stærstu matvælagreinum í álfunni sunnan Sahara. Þróunin hefur haldist í hendur við aukna eftirspurn samhliða dvínandi fiskistofnum.
Fjöldi kvíelda hefur aukist frá níu árið 2006 upp í 20.000 árið 2019 og í austurhluta Afríku þrefaldaðist iðnaðurinn milli 2017 og 2021.
Bændur í Afríku segja að iðnaðurinn geti skilað miklum gróða en á sama tíma feli hann í sér ótrúlega mikla áhættu.
Á síðasta ári urðu miklar hamfarir á Viktoríuvatni, stærsta stöðuvatni Afríku, en þar drápust þúsundir fiska þegar uppstreymi myndaðist sem olli því að súrefni leystist upp í vatninu. Bændur telja einnig að aukið magn þörunga eða mengun hafi einnig haft sitt að segja.
Allan Ochieng var meðal þeirra bænda sem muna eftir hamförunum en hann missti 120.000 Hekluborra, eða beitifiska. Latneska heitið á þessum hlýsjávarfisk er tilapía en hann hefur stundum verið kallaður „kjúklingur hafsins“ þar sem kjötið minnir frekar á kjúkling en fisk.
„Þegar við erum að fást við vöru sem við sjáum ekki þá reiðum við á tækni til að mæla hvað er að gerast undir yfirborðinu“
Hann segir að rúmlega helmingur af öllum þeim fiskum sem drápust hafi verið tilbúnir til afhendingar.
Fyrirtækið Yaleo Zambia er stærsti tilapíu-framleiðandi í Afríku en hann framleiðir 25.000 tonn af fiski í aðstöðu sem það hefur við Karibavatn í Sambíu og Úgandamegin við Viktoríuvatn.
Ulric Daniel, forstjóri fyrirtækisins, segir að fyrirtækið sé sífellt að leita eftir hátæknilausnum til að koma í veg fyrir atvik eins og gerðist í fyrra.
„Þegar við erum að fást við vöru sem við sjáum ekki þá reiðum við á tækni til að mæla hvað er að gerast undir yfirborðinu. Uppstreymi getur gerst mjög fljótlega en nú getum við fylgst betur með því. Við mælum til að mynda súrefnið daglega, pH gildi og ammoníakinnihaldið í vatninu,“ segir Ulric.