Hlutfjáraukning málmleitarfélagsins Amaroq Minerals, sem hófst á föstudaginn, fer vel af stað en samkvæmt Kauphallartilkynningu félagsins nú í kvöld hafa fjárfestar lýst yfir áhuga á þátttöku á áskriftarverðinu sem nemur um 5,2 milljörðum íslenskra króna.
Áskriftarverðið er 127 krónur sem samsvarar meðaltalsverði bréfa félagsins síðustu fimm daga hérlendis en verðið er lægra en meðaltalsverð gengi félagsins í Kanada. Dagslokagengi Amaroq fyrir helgi var 124 krónur.
Samkvæmt félaginu verður fjármagnið nýtt í „að hraða vinnslu, þróun og rannsóknum með það að markmiði að auka virði hlutabréfa félagsins og staðfesta mögulegt virði eignasafns þess.“
Um er að ræða námuvinnslu félagsins í Nalunaq gullnámunni en féð verður notað til að greiða fyrir því að 300 tonna vinnslugetu á dag verði náð, svo sem varðandi uppsetningu flotrásar og þurrvinnsluaðstöðu.
„Í framhaldi af frábærum árangri síðasta sumar leggjum við í frekari fjárfestingar til að efla starfsemi og framleiðslu í Nalunaq og hraða rannsóknum þvert yfir safn okkar af verðmætum rannsóknarleyfum á Suður-Grænlandi og þar með flýta fyrir framgangi verkefna félagsins um tvö ár. Með því festum við í sessi virði Nalunaq gullnámunnar og um leið höldum við áfram rannsóknum á gulli og öðrum verðmætum málmum. Með þessari ráðstöfun erum við sannfærð um að við getum skapað verðmæti fyrir hluthafa. Auk þess verður félagið nettó skuldlaus,“ segir Eldur Ólafsson forstjóri í Kauphallartilkynningu.
Heimildarskírteini fyrir nýja fjárfesta
Fjármögnuninni er ætlað að samanstanda af útgáfu nýrra almennra hluta með nýjum fjárfestum og stofnanafjárfestum sem þegar eru fjárfestar í félaginu á áskriftarverðinu en einnig með útgáfu nýrra heimildarskírteina yfir almenna hluti með nýjum fjárfestum og aðilum sem þegar eru fjárfestar í félaginu á áskriftarverðinu.
„Það er mjög spennandi að vera stærsti leyfishafi námuvinnslu á Suður-Grænlandi um þessar mundir, á svæði sem hefur að geyma síðustu tækifæri stjórnvalda og fyrirtækja á Vesturlöndum til að tryggja öruggar birgðir þeirra verðmætu málma sem eru bráðnauðsynlegir fyrir orkuskipti. Nú munu verðmætin sem við höfum byggt upp síðustu 8 árin nýtast vel við aukningu rannsóknarborana sem munu draga fram mögulegt virði landsvæða okkar með skjótari hætti,“ segir Eldur.