Kaffihúsi Kaffitárs á Höfðatorgi var lokað um mánaðarmótin eftir 17 ára rekstur. Eftir standa tvö kaffihús á vegum Kaffitárs, annað í Kringlunni og hitt í Háskólanum í Reykjavík, en fyrir faraldurinn voru þau sjö talsins.
Marta Rut Pálsdóttir, framkvæmdastjóri kaffihúsa hjá Kaffitári, segir að verið sé að taka til í rekstrinum en lokunin á Höfðatorgi sé sú síðasta og að Kaffitár verði áfram í Kringlunni og HR.
Í ársreikningi Kaffihúsa Kaffitárs ehf. fyrir árið 2023 kom fram að rekstrarumhverfi kaffihúsana hafi verið afar krefjandi síðastliðin ár en að stjórnendur félagsins hafi unnið að endurskipulagningu rekstrar og fjármögnunar til þess að bregðast við erfiðum rekstraraðstæðum, meðal annars með lokun kaffihúsa.
„Þetta er bara áframhald af því. Síðustu þrjú fjögur árin erum við bara búin að vera í alls konar aðgerðum, sumar virka en aðrar ekki,“ segir Marta Rut en nú horfi til betri vegar.
„Við ætlum að reyna að ná okkur á strik og vonandi opnast einhver önnur tækifæri á öðrum stöðum, við erum eins og allir í svona rekstri að hugsa um réttu staðsetninguna.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.