Flugfélag Íslands hefur gengið frá kaupum á þremur Bombardier Q400 flugvélum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair Group. Þar segir að heildarfjárfestingin mun hækka heildareignir Icelandair Group samstæðunnar um 25 milljónir dollara, að teknu tilliti til söluverðs allra fimm Fokker 50 flugvéla Flugfélags Íslands.
Vélarnar eru 2000 og 2001 árgerð og verða þær afhentar í júlí og ágúst á þessu ári. Þá fara þær í innleiðingarferli fyrir leiðakerfi Flugfélags Íslands en gert er ráð fyrir að fyrsta vélin byrji að fljúga í leiðarkerfinu í desember 2015. Í tilkynningunni segir að fjárfestingin verði fjármögnuð með lausafé Icelandair Group en í lok fyrsta ársfjórðungs nam handbært fé frá rekstri samstæðunnar um 283 milljónum dollara.