Alvotech fundaði síðdegis í dag með íslenskum markaðsaðilum vegna stöðu umsóknar á markaðsleyfi fyrir AVT02, lyfjahliðstæðu við gigtarlyf Humira, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Fulltrúar viðskiptabanka og sjóðastýringafyrirtækja gafst kostur á að ræða við Róbert Wessman, forstjóra Alvotech, sem hefur jafnframt boðað sig í viðtal í Kastljósi í kvöld.

Heimildir blaðsins herma um hafi verið að ræða upplýsingafund um stöðu umsóknarinnar og almennt um umsóknarferla Matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna (FDA)‏.

Alvotech tilkynnti í gærkvöldi að fyrirtækið hefði fengið staðfestingu um að FDA hafi enn til skoðunar ítarleg svör Alvotech við ábendingum þess, sem bárust eftirlitinu 3. apríl.

Alvotech tilkynnti eftir lokun markaða á fimmtudaginn um að FDA væri ekki tilbúið að veita markaðsleyfi fyrir AVT02 þar til líftæknifyrirtækið hefur brugðist með fullnægjandi hætti við ábendingum sem eftirlitið greindi fyrirtækinu frá í kjölfar úttektar á framleiðsluaðstöðunni í Vatnsmýrinni, sem lauk 17. mars.

Við lokun Kauphallarinnar í gær hafði hlutabréfaverð Alvotech fallið um þriðjung frá því að félagið sendi frá sér framangreinda tilkynningu um að FDA væri ekki reiðubúið að samþykkja umsóknina að svo stöddu. Gengi hlutabréfa Alvotech hækkaði þó um 12,7% í 321 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag og stendur nú í 1.465 krónum á hlut.