Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu og Finnur Oddsson, forstjóri Haga, áttu nýlega fund með Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra eingöngu til þess að ræða stuld úr verslunum.

Áætlað er að árlega sé vörum fyrir 2,5 til 3,8 milljarða króna stolið úr matvöruverslunum. Upphæðin er enn hærri eða á bilinu 6 til 8 milljarðar króna þegar öll smásalan er tekin í reikninginn.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu og Finnur Oddsson, forstjóri Haga, áttu nýlega fund með Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra eingöngu til þess að ræða stuld úr verslunum.

Áætlað er að árlega sé vörum fyrir 2,5 til 3,8 milljarða króna stolið úr matvöruverslunum. Upphæðin er enn hærri eða á bilinu 6 til 8 milljarðar króna þegar öll smásalan er tekin í reikninginn.

Ástæðan fundarins var meðal annars sú að forsvarsmönnum verslunar þykir eftirfylgni ákæruvaldsins í þjófnaðarmálum ábótavant, sem sé mjög slæmt því langstærsti hluti málanna tengist skipulagðri brotastarfsemi en ekki hnupli barna eða unglinga.

„Við metum að allt að 1,5 prósent af heildarveltu í smásölu sé óútskýrð rýrnun,” segir Andrés. „Stærstur hluti þessara verðmæta fer forgörðum vegna einhvers konar brotastarfsemi og þá fyrst og fremst þjófnaðar. Þetta hefur verið viðvarandi vandamál og viðfangsefni mitt í öll þau sextán ár sem ég hef starfað hjá SVÞ. Ég hef átt fundi með öllum dómsmálaráðherrum á þessu tímabili um það hvernig hægt væri að stemma stigu við þessu."

Andrés segir að Samtök verslunar og þjónustu, sem og forsvarsmenn fyrirtækjanna sjálfra, hafi ítrekað bent stjórnvöldum á hversu lítil eftirfylgni sé í þessum málum. Aðeins brot af þeim málum sem kærð séu til lögreglu endi í ákærumeðferð. Þetta var meðal annars það sem Andrés og Finnur ræddu á fundi dómsmálaráðherra á dögunum.

„Að aðeins brot af kærðum málum endi í ákærumeðferð þýðir að varnaðaráhrifin eru lítil sem engin. Þegar fólk sér að það kemst upp með að fremja svona afbrot án þess að það hafi neinar afleiðingar þá heldur það bara áfram. Við höfum þráfaldlega bent á að ferlið þurfi að vera skilvirkara og hraðara. Oftar en ekki hafa brotamenn verið handteknir en svo þegar á að gera eitthvað meira í málinu þá eru þeir horfnir á braut, farnir úr landi, og aðrir komnir í staðinn.”

Að sögn Andrésar er hluti af vandanum líka sá að þegar ákært hafi verið þá hafi  reynst erfitt að koma einkaréttarlegri kröfu inn í dómsmálið. Það sé slæmt enda mikið hagræði fólgið í því fyrir brotaþola, í þessum tilfellum eigendur verslana, að koma einkaréttarkröfu sinni að samhliða refsikröfu ákæruvaldsins.

„Við ræddum þetta líka við dómsmálaráðherra og það hvernig héraðsdómarar í landinu meðhöndla mál með ólíkum hætti. Það er merkjanlegt að mun erfiðara er að koma einkaréttarkröfunni að hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og Héraðsdómi Reykjaness en öðrum héraðsdómstólum. Við óskuðum eftir því við ráðherra að hann færi yfir þessi mál með dómstólasýslunni.”

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.