Fjártæknifyrirtækið Standby Deposits hefur nýlega tryggt sér 720 milljónir króna í sprotafjármögnun frá bæði Brunni vaxtarsjóði II og Stoðum hf.
Félagið er bandarískt og skráð í New York en var stofnað af Íslendingum og er komið langt á leið með að gjörbreyta leigumarkaðnum í Bandaríkjunum.
Egill Ágústsson, framkvæmdastjóri Standby Deposits, segir að hlutverk fyrirtækisins sé að veita ábyrgðir sem koma í stað öryggistryggingu við leigu á húsnæði, en í Bandaríkjunum er algengt að slík trygging jafngildi eins til tveggja mánaða leigu.
„Við erum mjög ánægð að fá bæði Brunn og Stoðir með okkur í lið á meðan við gjörbyltum leigumarkaðnum með greiðslulausn okkar. Þessi fjármögnun gerir okkur kleift að stækka starfsemi okkar, auka umfang og bjóða upp á hagkvæmari kost fyrir milljónir einstaklinga sem standa frammi fyrir fjárhagslegum hindrunum í húsnæðismálum,“ segir Egill.
Árni Blöndal, fjárfestingastjóri og annar stofnenda Brunns Ventures, segist stoltur af því að geta veitt Standby Deposits þessa sprotafjármögnun þar sem fyrirtækið leitast við að finna einfaldari og ódýrari lausnir á húsnæðismarkaði. „Við styðjum þetta jákvæða samfélagsverkefni eindregið sérstaklega á tímum mikillar verðbólgu.“