Nýtt fasteignaapp hefur litið dagsins ljós undir heitinu Hómer en smáforritið er það fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Hugmyndasmiðir appsins eru þeir Frosti Guðjónsson og Birkir Guðmundsson en þeir hafa unnið að þróun þess í rúmt ár með fyrirtækinu Apparatus.

Appið býður upp á leitarvél og eignavakt sem sendir notendum tilkynningar beint í símann þegar eignir sem passa við leitarskilyrðin þeirra koma á markað.

„Hómer gerir notendum kleift að gera kauptilboð í gegnum appið sem er nýjung á íslenskum fasteignamarkaði. Þetta sparar bæði kaupendum og fasteignasölum mikinn tíma og einfaldar allt ferlið við kaup og sölu fasteigna,“ segir Frosti.

Fasteignaappið er hannað með einfalt og notendavænt viðmót í huga og býður upp á lausnir sem auka yfirsýn fasteignasala og auðvelda gerð kaupsamninga. Markmið appsins er að gera fasteignaviðskipti skilvirkari, hraðari og þægilegri fyrir alla aðila.

„Við erum ekkert smá spenntir fyrir þessu. Appið sjálft hefur verið í bígerð í rúmt ár og hefur samstarfið við Apparatus gengið vonum framar. Markmiðið hefur frá upphafi verið að einfalda fasteignaleit fyrir fólk í kauphugleiðingum og um leið vinnu fasteignasala sem geta nú fengið útfyllt kauptilboð sent beint til sín,“ segir Birkir.

Frosti og Birkir hafa þegar hafið samstarf við nokkrar fasteignasölur en stefna á að fá fleiri til liðs við sig á næstu vikum. Í dag finnast um 2600 eignir í appinu en í tilkynningu segir jafnframt að appið sé þegar komið efst á vinsældalistann í Lifestyle-flokknum í App Store.