Hlutabréfaverð fréttaveitunnar Buzzfeed féll um 40,7% í gær og hefur nú fallið um 58% frá áramótum. Talsmaður Buzzfeed, sem fór á markað með samruna við sérhæft yfirtökufélag í desember, rekur lækkunina í gær til þess að tímabundið sölubann (e. lock-up) á hlutabréfum stjórnenda og stórra stofnanafjárfesta rann sitt skeið fyrr í mánuðinum.
Þar sem lítið flot sé á bréfunum og fáir fjárfestar eiga hlut í félaginu getur hlutabréfaverð félagsins verið mjög sveiflukennt, sagði talsmaðurinn við Wall Street Journal.
Mörg fyrirtæki sem skráð eru á markað leggja á tímabundið sölubann sem kemur í veg fyrir að innherjar selji hlutabréf á tilteknu fyrirtæki. Þetta fyrirkomulag á að fullvissa fjárfesta um að ekki sé von á mikið af hlutabréfum á söluhliðinni - í það minnsta á fyrstu mánuðunum frá skráningu - með tilheyrandi áhrifum á gengi félagsins.
Hlutabréfaverð skráðra félaga hafa oft lækkað við gildislok sölubanns. Hlutabréf Facebook, sem heitir nú Meta, féllu um 6% í verði í ágúst 2012 þegar fjárfestar sem komu snemma inn í hluthafahóp samfélagsmiðilsins varð heimilt að selja hlut sinn í félaginu.